Starfsmenntaverðlaunin til Samskipa

Samskip hlutu starfsmenntaverðlaun Starfsmenntaráðs í flokki fyrirtækja og félagasamtaka fyrir árið 2008 og fræðslusetrið Starfsmennt í flokki skóla og fræðsluaðila. Undanfarin ár hafa Samskip boðið uppá öflugt og fjölbreytt nám og sérsniðna fræðslu fyrir ákveðna starfsmannahópa. Þá hafa Samskip stofnað Flutningaskóla Samskipa en þar fer fram sérhæft einingametið nám fyrir starfsmenn sem eiga stutta formlega skólagöngu að baki.

Starfsmenntaverðlaunin

Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskipa  veitti verðlaununum viðtöku. Sagði hann starfsmenntaverðlaunin dýrmæta viðurkenningu fyrir mannauðs- og fræðslustefnu Samskipa en undanfarin ár hafi metnaðarfullt fræðslustarf verið einn af lykilþáttum í starfsemi félagsins. Starfsmenntaverðlaunin væru Samskipum sannarlega hvatning til áframhaldandi góðra starfa. Ásbjörn segir ríka áherslu lagða á það hjá Samskipum að fræðsluferlið sé virkt um allt fyrirtækið og að það nái til allra starfsmanna. Starfsmenntun verði þannig hluti af framtíðaráætlunum starfsmanna því þeir fái tækifæri til að auka við þekkingu sína og færni í núverandi starfi og afla sér þekkingar á nýjum sviðum.

"Við leggjum áherslu á að starfsmenn þróist í starfi enda er það forsenda þess að fyrirtækið geti haldið áfram að stækka og styrkjast. Starfsfólkið þarf að vera vel að sér og skilja hvernig best er að framkvæma hlutina og taka ákvarðanir sem byggðar eru á faglegum skilningi á viðskiptavinum fyrirtækisins og þörfum þeirra."

Fræðslusetrið Starfsmennt hlaut verðlaunin fyrir verkefnið Járnsíðu sem hefur verið samstarfsverkefni Fræðslusetursins Starfsmenntar og Sýslumannafélags Íslands  frá árinu 2003. Járnsíða samanstendur af rúmlega 30 námsþáttum sem mynda heildarnámskerfi fyrir starfsfólk embættanna við almenn skrifstofu- og afgreiðslustörf en sinnir einnig sérhæfðri þjónustu við sérfræðinga.  Hulda Anna Arnljótsdóttir framkvæmdastjóri Starfsmenntar veitti verðlaunum viðtöku en fulltrúar sýslumanna og starfsmanna þeirra voru einnig viðstaddir.

Forseti Íslands afhenti verðlaunin nýverið.