Starfsmannaleigudómur í Hæstarétti

Í máli sem dæmt var í Hæstarétti 7. desember var deilt um hvort verktakafyrirtækinu Impregilo bæri að greiða starfsmanni sem ráðinn var af starfsmannaleigu til starfa við verkframkvæmdirnar við Kárahnjúka mismun þeirra launa sem hann taldi sig eiga rétt á sem trésmiður í vaktavinnu og verkamannalaunum sem starfsmannaleigan greiddi honum. Þá var deilt um það hvort Impregilo eða starfsmannaleigan væri vinnuveitandi starfsmannsins. Niðurstaða Hæstaréttar var að Impregilo væri ekki vinnuveitandi starfsmannsins heldur starfsmannaleigan. SA bendir á að sú niðurstaða er í fullu samræmi við gildandi lög um starfsmannaleigur.

Óumdeilt var í málinu að laun starfsmannsins skyldu vera í samræmi við íslenska kjarasamninga. Ágreiningur var á hinn bóginn um útreikningsaðferðina. Hæstiréttur féllst á kröfu Impregilo um að við launasamanburðinn skyldi fara eftir samningi sem fulltrúar landssambanda ASÍ, þar á meðal Samiðnar sem stóð að málsókninni, höfðu gert við Impregilo. Var talið að starfsmaðurinn ætti rétt á þeim mismun sem samanburður á launum samkvæmt íslenskum samningum og portúgölsku laununum á grundvelli þeirrar reglu leiddi í ljós. Impregilo var gert að greiða þann mun með tilvísan til til sérstakrar ábyrgðaryfirlýsingar í samningi fyrirtækisins við landssambönd ASÍ.

Fallist var á með Impregilo að miða ætti við verkamannalaun en ágreiningslaust var að starfsmaðurinn starfaði ekki við trésmíðar og engin gögn voru lögð fram um að hann hefði fullnægt kröfum sem gerðar eru til staðfestingar á starfsréttindum iðnaðarmanna. Á hinn bóginn var talið að beita ætti vaktaálagi og manninum dæmdar 84.142 krónur.

Sjá nánar dóm Hæstaréttar.