Söfnun vegna Grímsvatnagoss gengur vel - mikilvægt framlag atvinnulífsins

Stjórn Samstöðusjóðsins, sem stofnaður var með stuðningi fyrirtækja og almennings vegna Grímsvatnagossins, þakkar góðan vilja fyrirtækjanna að styðja Skaftfellinga í þeim miklu hremmingum sem gosið olli á vormánuðum. Framundir þetta hafa verið að koma loforð frá fyrirtækjum um stuðning og ennfremur hafa einstaklingar og félagasamtök lagt fram peninga til verkefnisins. Áætla má að loforðin um stuðning nálgist nú 25 til 30 milljónir samtals.

Þegar verkefninu lýkur verður birtur listi yfir alla stuðningsaðila og hvaða verkefni hlutu stuðnings sjóðsins. Í tilkynningu frá stjórnarmönnum segir að þakklæti sé þeim ofarlega í huga vegna stuðningsins en mest um vert hafi þó verið hið mikla sjálfboðastarf og aðstoð sem björgunarsveitir, almannasamtök og almenningur veitti heimamönnum í gosinu.

Fyrirtæki sem vilja leggja söfnuninni lið geta haft samband við Guðna Ágústsson sem veitir allar nánari upplýsingar.

Fyrirspurnir má senda á gudni@sam.is