Skýringar 6% hækkunar launavísitölu síðustu 12 mánuði

Launavísitala hækkaði um 6,0% milli september 2009 og 2010. Þessi hækkun á sér fyrst og fremst skýringu í tveimur samningsbundnum hækkunum samkvæmt almennum kjarasamningum.  Þann 1. nóv. 2009 var almenn 3,5% launahækkun (launaþróunartrygging) og kauptaxtar verkafólks hækkuðu um 6.750 kr. og iðnaðarmanna 8.750 kr. Þann  1. júní 2010 hækkuðu laun almennt um 2,5%, kauptaxtar verkafólks hækkuðu um 6.500 kr. og iðnaðarmanna um 10.500 kr. Almennar launahækkanir vor því samtals 6,1% á tímabilinu og hækkanir samningsbundinna kauptaxta 8-9%.

Að auki er jákvæð árstíðasveifla í september þar sem bónusar, þar sem um þá er að ræða, lækka yfir sumarmánuðina og hækka aftur í september. Hækkun launavísitölu um 0,3% milli ágúst og september stafar líklega einkum af slíkri árstíðasveiflu.