Skynsemi, raunsæi og framsýni

Í dag funda Samtök atvinnulífsins með fjórum landssamböndum verkalýðsfélaganna, Starfsgreinasambandinu og Flóabandalaginu, Rafiðnaðarsambandinu, Landssambandi íslenskra verslunarmanna og Samiðn. Á þessum fundum verður farið yfir stöðuna í viðræðum um nýja kjarasamninga í ljósi þess að á sameiginlegum fundi í gær gáfu Alþýðusambandið og landssamböndin það til kynna  að nú væru samningamálin ekki lengur á sameiginlegu borði þar sem ríkisstjórnin hefði tekið svo dræmt í þær hugmyndir sem þau vildu leggja til grundvallar nýjum kjarasamningum.

Á fundunum í dag verður farið yfir hina nýju stöðu og ákveðið hvert stefna skal viðræðunum. Flóabandalagið hefur tekið ákvörðun um að vísa kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara sem flækir viðræðurnar nokkuð og gerir erfiðara um vik að nálgast málin á ný á sameiginlegu borði með öllum landssamböndunum. 

Samtök atvinnulífsins telja nauðsynlegt að halda áfram viðræðunum á grundvelli skynsemi, raunsæis og framsýni. Það er öllum í hag að kjarasamningarnir varði leiðina að lægri verðbólgu og að launakostnaðarhækkunum sé forgangsraðað til þeirra sem eru með lægstu launin eða þeirra sem ekki hafa notið neins launaskriðs.

Það eru ýmis mál sem þarf að ræða milli samningsaðila og ríkisvaldsins en verða mun flóknari viðureignar þegar þau eru ekki lengur á sameiginlegu borði. Samtök atvinnulífsins hafa ekki viljað gefast upp við að þróa nýjar áfallatryggingar með verkalýðsfélögunum og þar er aðkoma stjórnvalda nauðsynleg. Nefnd um húsnæðismál er nú á lokasprettinum í störfum sínum og æskilegt er að tengja niðurstöðu hennar nýjum kjarasamningum.

Samtök atvinnulífsins hafa lengi gert það ljóst að það er ekki vilji til að ganga frá nýjum kjarasamningum nema breyting verði á peningamálastefnu Seðlabankans. Vaxtastefna bankans er í hreinni sjálfheldu og nú fara langtímavextir á markaði lækkandi þrátt fyrir hina háu stýrivexti.

Nú þegar afleiðingar niðursveiflunnar á fjármálamarkaðnum koma sífellt betur í ljós er nauðsynlegt að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins ræði strax hvað skynsamlegt er að gera ef atvinnuleysi fer að grafa um sig næsta haust. Það getur vel orðið raunin því að smám saman mun hægja á fjárfestingum og draga úr eftirspurn eftir starfsfólki ef fjármálamarkaðirnir rétta ekki úr kútnum á næstu mánuðum. Þess vegna verður sem fyrst að hefja undirbúning þess að flýta opinberum framkvæmdum og að skipuleggja nýjar framkvæmdir ef í óefni stefnir. Ennfremur þarf að tryggja að þær miklu fjárfestingar sem eru á borðinu í áliðnaði og víðar fái eðlilegan framgang.

Samtök atvinnulífsins vinna að kjarasamningunum með heildarhagsmuni atvinnulífsins og þjóðarinnar að leiðarljósi. Kjaraviðræður hafa oft farið fram með þeim hætti að skrefin eru stigin ýmist áfram eða aftur á bak og jafnvel í hringi. Á endanum ná samningsaðilarnir þó yfirleitt takti eins og í góðum dansi sem hefur farsælan endi.

Vilhjálmur Egilsson