Skipulagsdagar leikskóla - bera þjónustulund ekki fagurt vitni

Nýverið barst foreldrum barna á forskólaaldri í Reykjavík tilkynning um að þau þyrftu að óska eftir enn frekara leyfi frá vinnu, þ.e. taka sumarorlof, vegna mikilvægra fundarhalda starfsmanna á leikskólum. Fjöldi skipulagsdaga hefur tvöfaldast á síðustu fimm árum.

Tilkynning borgarinnar hljóðaði svo:

"Á fundi skóla- og frístundaráðs, 21. mars 2012 og í borgarráði 29. mars, var samþykkt tillaga um fjölgun skipulagsdaga í leikskólum Reykjavíkurborgar úr fimm í sex á ári. Samþykktin tekur gildi 1. júní 2012." Síðar segir: "... nauðsynlegt  er ..... að kynna sér og ræða ný hugtök sem fram koma í skólanámskránni. Einnig þurfi aukinn tíma til að ræða, skipuleggja og vinna að foreldrasamstarfi, tengslum leikskóla og grunnskóla, hvernig meta á vellíðan og nám barnanna og síðast en ekki síst er framkvæmd innra mats og umbótaáætlanir."

Í janúar 2007 var skipulagsdögum á leikskólum fjölgað úr þremur í fjóra. Leikskólarnir áttu að leitast við að hafa tvo skipulagsdaga í tengslum við starfs- og frídaga í grunnskólunum en að öðru leyti átti að haga þeim þannig að sem best hentaði foreldrum og starfsfólki. Í febrúar 2009 var þeim fjölgað úr fjórum í fimm, en þrjá þeirra átti þá að skipuleggja á sama tíma og skipulagsdagar starfsfólks eða frídagar nemenda voru í grunnskólum.

Sex dagar á ári er mikill tími fyrir framangreindar umræður. Foreldrar þurfa yfirleitt að nýta orlofsrétt sinn á þessum dögum og nemur þessi dagafjöldi fjórðungi lágmarksorlofs. Svo virðist sem nokkur misbrestur sé á samstarfi grunnskóla og leikskóla um þessa frídaga sem bitnar illa á foreldrum með börn á báðum skólastigum.

Það vekur furðu að borgaryfirvöld skuli ætlast til að foreldrar leikskólabarna verji fjórðungi sumarorlofs síns svo starfsmenn leikskóla borgarinnar geti rætt skipulag á eigin starfsemi. Þess utan afmarka borgaryfirvöld þann tíma sem foreldrar leikskólabarna taka afganginn af sumarorlofi sínu með skipulögðum, allt að fjögurra vikna, lokunum leikskóla yfir sumartímann. Þetta kemur sér einnig verr við starfsmenn á almennum vinnumarkaði sem hafa yfirleitt styttra orlof en starfsmenn hjá ríki og sveitarfélögum. Það myndi líklegast heyrast hljóð úr horni ef þjónustustofnun á almennum markaði myndi ætlast til hins sama.

Eðlilega er spurt hver sé ávinningur með þessum starfsdögum og hvernig til hafi tekist varðandi umönnun barnanna áður en skipulagsdagar voru teknir upp.

Í venjulegum fyrirtækjum og stofnunum gerist það ekki að starfseminni sé lokað í sex daga á ári til að ræða ný hugtök, samstarf við viðskiptamenn og umbætur. Það er í mesta lagi gert einu sinni á ári, á sérstökum stefnumótunardegi, en alla jafna er litið á þróun starfseminnar sem viðvarandi viðfangsefni og hluta af almennri vinnu innan fyrirtækisins. Fyrirtæki í samkeppni, sem þurfa að koma til móts við þarfir viðskiptamanna sinna, geta ekki leyft sér að loka til að sinna innri málefnum.

Þjónusta leikskólanna er góður og nauðsynlegur kostur fyrir útivinnandi foreldra. Þar sem hér er um að ræða niðurgreidda opinbera þjónustu hefur einkaaðilum reynst erfitt að keppa við opinbera rekstraraðila. Niðurfelling þessarar opinberu þjónustu með þeim hætti sem gert er hér á landi þekkist tæpast í nágrannalöndunum. Í Noregi og Danmörku eru dæmi um lokanir fyrir þjónustu á starfsdögum, en eftir því sem næst verður komist er foreldrum þar yfirleitt boðið upp á aðra dagvistun í staðinn. Niðurfelling á þjónustu leikskólanna á starfsdögum eru einokunareinkenni sem koma sér afskaplega illa fyrir allan þorra foreldra með ung börn og þau fyrirtæki sem þeir starfa hjá.

Enn frekari einhliða fjölgun skipulagsdaga bitnar illa á foreldrum og fyrirtækjum. Foreldrar ungra barna eru þöglir þolendur sem virðast ekki eiga auðvelt með að bera hönd fyrir höfuð sér. Endurskoða þarf þessi vinnubrögð í leikskólastarfi og leggja meiri áherslu á þjónustu við foreldra og atvinnulíf. SA vilja leggja sitt lóð á þær vogarskálar að skapa umræðu um hvernig megi gera endurbætur á skipulagi leikskólastarfsemi þannig að foreldrar ungra barna þurfi ekki að ráðstafa stórum hluta orlofsins á hverju ári vegna skipulagsdaga.