Skilaboð atvinnulífsins um brýnustu úrlausnarefnin

Í könnun meðal forsvarsmanna aðildarfyrirtækja SA í fyrri hluta apríl voru þeir beðnir um að koma á framfæri skilaboðum til stjórnvalda um brýnustu úrlausnarefnin að þeirra mati. 199 þátttakendur tjáðu sig og lögðu flestir áherslu á mikilvægi þess að örva fjárfestingar. Næst flestar athugasemdir snéru að gagnrýni á ríkisstjórnina og þar á eftir kom áhersla á lækkun vaxta og skatta. Á vef SA er yfirlit yfir þá málaflokka sem nefndir voru til sögunnar og nokkur dæmi um athugasemdir forsvarsmannanna fylgja með.

Fjárfestingar af stað!

"Mikilvægast er að koma atvinnulífinu í gang að nýju. Stór hluti atvinnustarfseminnar bíður enn eftir lausn sinna mála til að geta haldið áfram eðlilegri starfsemi. Áfall vegna gengisfalls og rýrnunar eigna er enn að sliga allt of marga."

"Greiða þarf fyrir erlendum fjárfestum/fjárfestingum og láta af aðgerðum sem fæla slíka aðila frá landinu. Greiða þarf fyrir íslenskum atvinnurekstri með öllum tiltækum ráðum í stað skattpíninga og íþyngandi kerfisbreytinga."

"Koma þarf af stað mannaflsfrekum framkvæmdum. Skýra framtíðarsýn vantar sem skapar óöryggi á öllum sviðum. Tala þarf kjark í atvinnulífið og hætta að reyna að leysa vandamál með skattlagningu."

"Stjórnvöld virði leikreglur umhverfismats en setji ekki sífellt fram nýjar og auknar kröfur sbr mat á umhverfisáhrifum á Bakka, Suðurlína, neðri Þjórsá o.fl. stjórnvöld klári fjármögnunarsamninga vegna ýmissa greina svo að erlendir fjárfestar viti að hverju þeir ganga ef þeir hyggjast fjárfesta á Íslandi."

Um ríkisstjórnina

"Eyðið ekki öllum tiltækum ráðum og tíma í að auka álögur/skatta á fyrirtæki (beina eða óbeina) þau lifa ekki lengi með þessu framhaldi. Komið með raunhæfar tillögur sem skipta máli, ekki framlengingar á vandamálum."

"Hættið að leggja steina í götu endurreisnar atvinnulífsins með því að ala á óeiningu og þvælast fyrir frumkvæði fyrirtækja til að skapa ný atvinnutækifæri."

"Hættið hræðsluáróðri gagnvart erlendri fjárfestingu."

"Hættið ofsóknum á hendur atvinnulífinu og skapið stöðugan rekstrargrundvöll."

Lækkun vaxta

"Lækkið stýrivexti, komið framkvæmdum af stað."

"Lækkið vexti . Annars náum við íslensku hagkerfi ekki af stað."

"Lækkið vexti, vinnið með atvinnulífinu að uppbyggingu í stað þess að rífa það niður."

"Lækka þarf vexti þannig að atvinnulífið sé samkeppnisfært við hefðbunnar sparifjárleiðir um fjármagn til fjárfestinga."

"Vextir þurfa að vera sambærilegir og í öðrum löndum ( þ.e.a.s. stefna á upptöku evru)"

Skattamál

"Lækka þarf skatta á fyrirtæki til að skapa hvata til fjárfestinga."

"Lækkið skatta á launþega, á hlutabréfasölur og arðgreiðslur. Með skattahækkunum þá hefur hvatinn til að fjárfesta í fyrirtækjum verið minnkaður/fjarlægður."

"Gæta þarf þess að skattleggja ekki ferðaþjónustuna í kaf með kolefnissköttum, komugjöldum osfrv."

"Leggið áform um frekari skattlagningu atvinnulífsins og heimila í landinu á hilluna."

Gjaldeyrishöft

"Afnema þarf gjaldeyrishöftin og grípa til allra ráða, sem stykt geta íslensku krónuna."

"Bankaviðskipti við útlönd eru ennþá í ólagi. Gjaldeyrishöftin verða að fara."

"Brýnustu úrlausnarefni stjórnvalda hér á landi tel ég vera að koma hér aftur á haftalausu kerfi. Það þarf að losna við gjaldeyrishöftin og skapa hér aftur umhverfi sem fjárfestar geta óhræddir lagt fjármuni fram til að skapa hér verðmæti. Ef þetta tekst ekki mjög fljótlega, þá er hætt við að skaðinn af hruninu verði varanlegur og enginn erlendur aðili treysti sér til að fjárfesta hér á landi."

Sjávarútvegur

"Auka kvóta í botnfiski strax svo ekki þurfi að koma til langvarandi uppsagna."

"Félagið hefur getu til fjárfestingar og vaxtar en gerir ekki vegna ótta við stjórnvöld. Skilaboðin eru: Hverfið frá fyrningarleiðinni og gefið sjávarútvegnum, ásamt öðrum atvinnugreinum, svigrúm til að koma hjólum atvinnulífsins af stað."

"Út af borðinu með fyrningarleiðina í sjávarútvegi strax ,þannig að greinin geti farið að skipuleggja sig og fengið vinnufrið."

Icesave

"Klára Icesave svo hægt sé að koma uppbyggingu efnahagslífsins almennilega af stað og þá lækka vextir enn frekar sem bætir stöðu fyrirtækja."

"Leysa Icesave þannig að Hollendingar, Bretar, Danir og Þjóðverjar treysti okkur svo við þurfum ekki að staðgreiða allt sem keypt er frá þeim."

"Leysið Icesave og aukið tiltrú á Íslandi á ný. Finnið raunhæfar leiðir til að skipta krónunni út fyrir nothæfan gjaldmiði - með eða án inngöngu í ESB."

Óvissa

"Komið virkjunarframkvæmdum í gang og hættið að tefja framgöngu þeirra aðila sem hafa áhuga á að byggja upp stóriðju á Íslandi."

"Horfið fram á veginn, upplýsið og reynið að eyða óvissu."

"Það þarf að komast út úr óvissuástandinu sem fyrst....skapa meiri öryggistilfinningu og glæða mannaflsfrekar framkvæmdir. Óvissan lamar kerfið og stoppar hringrásina."

Hagstjórn

"Búa þarf til hagkerfi sem er ekki endlaus rússibani."

"Koma á stöðugleika, minnka verðbólgu og styrkja gengið."

"Það verður að ná niður verðbólgunni og atvinnuleysinu. Skattar og nýjar álögur eru að drepa atvinnureksturinn í landinu."

Minnkun ríkisumsvifa

"Minnka þarf hlutfallslega ríkisumsvif í hagkerfinu og um leið lækka skatta (tryggingagjald, vsk og tekjuskatt einstaklinga)."

"Takið til í ykkar rekstri eins og atvinnulífið hefur gert  - farið varlega í að auka skatthækkanir umfram það sem hefur nú þegar komið fram, nóg er komið!"

Mikilvægi samstöðu

"Vinnið saman að úrlausnum í staðinn fyrir að berjast ykkar á milli."

"Hættið í bili að horfa til fortíðar, við höfum nægan tíma til þess á síðari stigum. Brettið upp ermar og komið hjólum atvinnulífsins af stað aftur."

Aðstoð til heimilanna

"Á sama hátt og tókst að kveða niður verðbólgudrauginn í byrjun tíunda áratugarins þá ættu stjórnvöld og allir hagsmunaaðilar að taka sig saman um kraftmikið landsátak til þess að færa niður framfærslukostnað. Við megum ekki við launahækkunum og gengissigi í kjölfarið."

"Það verður að tryggja eðlilegar lausnir fyrir almenning í landinu svo einkaneysla fari af stað og almenningur fái trú á íslensku samfélagi."

Samkeppnishæfni atvinnulífsins

"Mikilvægt er að skapa skýra framtíðarsýn sem tryggir fyrirtækjum samkeppnishæf rekstrarskilyrði á Íslandi: Samkeppnishæft skattkerfi, traust bankakerfi."

"Meginverkefni komandi ára er aukning útflutnings og sköpun sem mests virðisauka á Íslandi."

"Umhverfi til að selja þekkingu er mjög gott en það vantar fólk. Vöxtur í sölu þekkingar takmarkast að mestu við takmarkaða auðlind, þ.e. fólkið. Það þarf að laða að velmenntað og gott fólk, t.d. frá löndum Austur-Evrópu sem geta ekki boðið sambærilega samfélags umgjörð."

Afnám verðtryggingar

"Það þarf að gera allt til þess að afnema verðtryggingu."         

"Banna á verðtryggingu og lækka stýrivexti í 1%."

Mismunun og samkeppni

"Hættið að flokka fyrirtæki og stofnanir í þjóðhagslega mikilvægar og ekki mikilvægar. Koma verður í veg fyrir áframhaldandi pilsfaldakapitalisma með innspýtingu fjár í gjaldþrota tryggingafélög, skipafélög og fjármálastofnanir."

"Gætið þess að fyrirtæki sem eru nú í eigu banka/ríkis hafi ekki samkeppnisforskot á einkarekin fyrirtæki. Gætið þess að "gjaldþrota" fyrirtæki séu ekki í samkeppni við fyrirtæki sem standa við skuldbindingar sínar."

Bankar

"Koma almennilegri skikkan á banka og sparisjóði þannig að þeir geti stutt við bakið á fyrirtækjunum."

"Setja þarf leikreglur um meðhöndlun skulda hjá fyrirtækjum og heimilum þannig að sú hreinsun geti farið fram og menn orðið færir til þess takast á við rekstur að nýju."

ESB aðild

"Ganga í ESB og taka upp EUR."

"Draga ESB umsókn tilbaka."

Krónan

"Eina leið okkar út úr þessum vanda er að krónan styrkist og vextir lækki. Erum á réttri braut en gengur fullhægt. Verðum að taka upp annan gjaldmiðil - svo forðast megi aðrar eins hörmungar og hafa gengið yfir okkur."

Doðinn

"Það sem mestu skiptir er doðinn - þjóðin er enn hálflömuð og áhættufælin. 1) Leysa verður Icesave (sálræn áhrif sérstaklega). 2) Ljúka endurskipulagningu lífvænlegra rekstrarfélaga. 3) Finna leið til að minnka skuldsetningu heimila og/eða auka nettótekjur þeirra. 4) Er skattalækkun á réttum tímapunkti vænlegust til að auka tekjur ríkissjóðs?"

Hvati til að vinna

"Fólk og fyrirtæki verða að hafa ávinning af því að taka þátt í þjóðfélaginu, verður að finna að þau séu þátttakendur, ekki fá þá tilfinningu að vera þrælar ríkis og bæjar. Fólk nennir þá ekki að vera með og sækir bara á félagslega kerfið og bætur."

Skilaboð til stjórnar SA

"Sendi frekar skilaboð til stjórnar SA um að standa á sínu og ekki láta örfáa aðila í pólitíkinni eyðileggja áratuga uppbyggingarstarf íslenskt atvinnulífs og verkalýðshreyfingar á góðu samfélagi."