Skattlagning söluhagnaðar milli fyrirtækja verði afnumin

Rætt var við Vilhjálm í tilefni af fullyrðingum Kristins H. Gunnarssonar, alþingismanns, um að ríkið hafi orðið af tekjum upp á um 50 milljarða króna vegna frestunar íslenskra fyrirtækja af um 317 milljarða króna söluhagnað, einkum af hlutabréfum á árunum 2001-2005. Kristinn vísaði til talna Ríkisskattstjóra í þessum efnum en Ríkisskattstjóri segir hins vegar ekkert til um hvort ríkið hafi orðið af skatttekjum. Vilhjálmur segir fullyrðingar Kristins alrangar. "Ríkissjóður hefur ekki misst af einum einustu tekjum. Við verðum að átta okkur á því að á meðan að söluhagnaður var skattskyldur milli fyrirtækja að þá mynduðust ekki neinar tekjur. Það var enginn skattstofn. Eftir að þessu var breytt að þá lifnaði viðskiptalífið algjörlega við. Og fyrirtæki fóru að geta lagt fé í önnur fyrirtæki og fyrirtæki gátu skipulagt sig eins og þau vildu og það sem er verkefnið núna, það er að afnema skattskyldu á söluhagnaðinn á milli fyrirtækja."

Vilhjálmur sagði í fréttum Sjónvarps mikilvægt að afnema skattlagningu söluhagnaðar milli fyrirtækja því eins og staðan sé nú séu fyrirtæki að fara hjáleiðir í gegnum hollensk eignarhaldsfélög til að losna við þessa skattskyldu. Þessi aðgerð myndi stuðla að því að halda peningum inni í íslenska hagkerfinu, auka þannig tekjur ríkissjóðs og þar með svigrúm til að lækka skatta á almenning. "Ef að menn ætla sér að fara hina leiðina og skattleggja atvinnulífið, þá minnkar tekjur ríkissjóðs og þá er ekki hægt að halda áfram að lækka skatta heldur þurfa menn að fara að hækka skatta."