Skattkerfið og hár fjármagnskostnaður takmarka vöxt lítilla og meðalstórra fyrirtækja

Að mati lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi eru skattkerfið og hár fjármagnskostnaður helstu hindranirnar fyrir vexti þeirra á næstu árum. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar sem gerð var fyrir Smáþing sem fram fer á morgun, fimmtudaginn 10. október. Skortur á fjármagni og hæfu starfsfólki koma þar á eftir, ásamt lítilli eftirspurn á markaði, reglubyrði og gjaldeyrishöftum.

Fyrirtækin voru beðin um að nefna þá þætti í starfsumhverfinu sem hindra vöxt þeirra og forgangsraða eftir mikilvægi. Þáttunum voru gefnar einkunnir á bilinu 1-7, þar sem 1 er mesta hindrunin.

Meðaleinkunn þátta í starfsumhverfinu sem hindra vöxt lítilla og meðalstórra fyrirtækja:

  • Skattkerfið, 3,1

  • Hár fjármagnskostnaður, 3,1

  • Skortur á fjármagni, 3,6

  • Skortur á hæfu starfsfólki, 3,7

  • Skortur á eftirspurn, 3,8

  • Reglubyrði, 3,8

  • Gjaldeyrishöft . 5,0

Á Smáþinginu sem fram fer á morgun verða birtar frekari niðurstöður úr könnuninni þar sem koma fram horfur um fjölgun starfa hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi á næstu 3-5 árum.

Um könnunina:

Könnunin var gerð af Outcome á tímabilinu 18.-29. september 2013. Í úrtaki var 1.691 lítið og meðalstórt fyrirtæki (með færri en 250 starfsmenn) innan Samtaka atvinnulífsins og svöruðu 378.

Tengt efni:

Smáþing 10. október á Hilton Reykjavík Nordica