Skattbyrði atvinnulífsins hefur aukist

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir að hafa haldið áfram á sömu braut og sú fyrri, að auka skattbyrði atvinnulífsins verulega. Í viðtali við Morgunblaðið segir hann jafnframt að framlag ríkisstjórnarinnar til kjarasamninganna hafi valdið vonbrigðum. "Ég held að það megi segja að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í verðlagsmálum hefðu mátt vera meira afgerandi. Það er alveg ljóst."

"Með hliðsjón af því fordæmi sem sveitarfélögin settu og með hliðsjón af aðgerðum fyrirtækja - en vel á annað hundrað fyrirtækja hafa gefið yfirlýsingar um óbreytt eða lægra verð á milli ára - þá er það veikt að ætla eingöngu að draga hluta hækkana til baka."

Þorsteinn segist ekki sjá nein merki þess að núverandi ríkisstjórn ætli að nálgast skattamálin með öðrum hætti en fyrri ríkisstjórn. Þess í stað hafi hún aukið skattbyrði atvinnulífsins með verulegum hætti.

"Má þar nefna bankaskatta, sem á endanum leiða til hærra vaxtastigs fyrir fyrirtæki og heimili, auk veiðigjalda og stimpilgjalda.

Þá varð lækkun tryggingagjaldsins vegna minnkandi atvinnuleysis að engu vegna hækkunar á almennu tryggingagjaldi þar á móti."

Ítarlegt viðtal er við Þorstein Víglundsson, er í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 30. janúar 2013.