Skattar verða lækkaðir

Fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, segir að skattar verði lækkaðir á yfirstandandi kjörtímabili. Þetta kom fram á Skattadegi Deloitte sem haldinn var í samstarfi við Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og Viðskiptablað Morgunblaðsins á Grand Hótel Reykjavík. Þó sagði Árni ekki tímabært að greina frá því hvenær það yrði gert eða með hvaða hætti í ljósi óvissu í efnahagsmálum og framvindu kjarasamninga. Uppselt var á Skattadaginn þar sem fjölbreytt erindi á sviði skattamála voru flutt. Fram kom m.a. að Ísland hefði enn fjölmörg tækifæri til að auka hér tekjur og velmegun með því að lækka skatta.

 

Skattasamkeppni og lágir skattar auka hagsæld

Í setningarávarpi sínu fjallaði fjármálaráðherra um helstu umbæturnar á skattkerfinu sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum og horfurnar framundan ásamt því að reifa stefnu ríkisstjórnarinnar á sviði skattamála. Lagði hann áherslu á mikilvægi þess að skattkerfið væri einfalt, háir jaðarskattar væru óæskilegir og lækkun skatthlutfalla og breikkun skattstofna gæti aukið jöfnuð í samfélaginu.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra

Að loknu setningarávarpi fjármálaráðherra fjallaði Richard Teather, skattasérfræðingur og kennari við háskólann í Bournemouth, um skattasamkeppni á milli landa. Hún felur í sér að einstök lönd reyna að laða til sín fjármagn, fyrirtæki og fólk með því að bjóða  lága skatta. Teather sagði skattasamkeppni vera öllum í hag, sérstaklega þeim löndum, sem nýti sér kosti alþjóðlegrar verkaskiptingar og frjálsra viðskipta.  Skattasamkeppni haldi jafnframt í skefjum viðleitni stjórnmálamanna til að hækka skatta. Með því auki hún hagsæld og auðveldi fjárfestingar. Teather benti á að talsmenn ESB og OECD hafi lagst gegn skattasamkeppni en ef þessum alþjóðastofnunum takist að takmarka skattasamkeppni milli landa muni það skaða alþjóðahagkerfið. Hins vegar megi gagnrýna skattasamkeppni þegar ríkisstjórnir Evrópulanda bjóði sérstök skattafríðindi.

Richard Teather, skattasérfræðingur

 

Breytinga er þörf

Á Skattadeginum fjölluðu sérfræðingar Deloitte jafnframt um áhrif breytinga á skattalögum 2007, um skatta- og lagalega stöðu erlends starfsfólks  á Íslandi og um áhrif tvísköttunar í virðisaukaskatti. Kynningar þeirra má nálgast hér að neðan en í þeim kom m.a. fram að nýlega hefðu verið gerðar breytingar á skattalegri meðferð arðgreiðslna milli félaga innan EES-svæðisins.  Í síðasta mánuði hefði verið lagt fram frumvarp á Alþingi sem fæli í sér skattfrelsi söluhagnaðar fyrirtækja af hlutabréfum. Texti frumvarpsins væri þó gallaður og væri óvíst að það leiddi til hagstæðari skattmeðferðar, eins og þó væri stefnt að.

Uppselt var á Skattadaginn 2008

Þá kom fram að tímabært væri að endurskoða virðisaukaskattskerfið frá grunni enda byggði það á dönskum lögum sem hafi verið samin fyrir um 20 árum síðan en miklar breytingar hafi orðið á viðskiptaumhverfinu og erlendum skattarétti.

 

Fundarstjóri var Guðrún Hálfdánardóttir, aðstoðarfréttastjóri mbl.is.

Sjá nánar:

Ræða Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra

Glærur ræðumanna má nálgast á vef Deloitte:

Richard Teather, Bournemouth University: Skattasamkeppni á milli landa

Guðmundur Skúli Hartvigsson, Deloitte: Skattabreytingar 

Jörundur Þórarinsson, Deloitte: Skattaleg staða erlends starfsfólks

Vala Valtýssdóttir, Deloitte : Tvísköttun í virðisaukaskatti