Skattar hafa hækkað umfram upphafleg áform ríkisstjórnarinnar

Í áætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um jöfnuð í ríkisfjármálum á tímabilinu 2009-2013 var sett markmið um að ríkissjóður yrði rekinn með 50 milljarða króna afgangi árið 2013. Til að ná þessum árangri var talið að aðhaldsaðgerðir, lækkun gjalda og aukning tekna, þyrftu að nema 179 milljörðum króna á tímabilinu. Samkvæmt stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins, sem undirritaður var í júní 2009, var samið um að skattahækkanir næmu 45% af aðhaldsaðgerðum ríkissjóðs (81 ma. kr. tekjuaukning á verðlagi ársins 2009) en 55% ættu að nást með lækkun útgjalda (98 ma. kr. lækkun).

Í nýrri úttekt Samtaka atvinnulífsins, "Skattstofnar atvinnulífsins - Ræktun eða rányrkja?", er lagt tölulegt mat á helstu skattahækkanir frá árinu 2008 og áform um hækkanir í fjárlagafrumvarpi 2013. Niðurstaðan er að varlega áætlað hafi skattahækkanir numið 87 milljörðum króna á áætluðu verðlagi ársins 2013.

Samanburður á útgjöldum ríkissjóðs á föstu verðlagi á milli áranna 20081) og 2013, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, leiðir í ljós lækkun þeirra um 67 milljarða króna á tímabilinu.2)

Reyndin hefur því orðið allt önnur en að var stefnt, skattar hafa hækkað meira og gjöld lækkað minna en áformað var. Í samanburði við upphaflegt samkomulag um skiptingu aðhaldsaðgerða ríkissjóðs nema skattahækkanir 57% aðhaldsaðgerða og lækkun útgjalda 43%, þannig að hlutföllin eru öfug  miðað við það sem að var stefnt árið 2009.

Samtök atvinnulífsins hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir að leggja of mikla áherslu á hækkun skatta í stað þess að hvetja til fjárfestinga með því að stuðla að stöðugleika í rekstrarumhverfi atvinnulífsins, afnema misfellur í skattkerfinu sem hindra fjárfestingu og nýsköpun og greiða götu erlendra fjárfestinga á Íslandi. Með því móti megi fjölga störfum og stækka skattstofna samtímis sem bótaþegum ríkissjóðs fækkaði.

Ennfremur hafa samtökin gagnrýnt stjórnvöld fyrir ónógan niðurskurð ríkisútgjalda í viðleitni sinni til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum sem er eitt brýnasta verkefnið í átt að efnahagslegum stöðugleika. Framangreindar niðurstöður sýna réttmæti þessarar gagnrýni.

Þegar nánar er rýnt í niðurskurð útgjalda kemur fram varanlegur sparnaður er umtalsvert minni en fyrrnefndar tölur bera með sér, sbr. meðfylgjandi töflu sem sýnir aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum 2009-2013. Þannig hefur stofn- og viðhaldskostnaður ríkisins lækkað um 30 ma.kr. á verðlagi ársins 2013 (viðhald á vegum, byggingum o.fl.) en varanleg rekstrar- og tilfærsluútgjöld einungis um 37 ma.kr., eða innan við fjórðung aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum.

Aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum 2009-2013
Smelltu á myndina til að stækka!


Takmarkaður sparnaður í varanlegum rekstrar- eða  tilfærsluútgjöldum á síðustu árum er ein skýring þess að ekki hefur tekist að ná jafnvægi í fjármálum ríkisins eins og stefnt var að í áætlunum ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá árinu 2009. Samdráttur í opinberum fjárfestingum og viðhaldsverkefnum er í eðli sínu skammtímaaðgerð sem leiðir til mikillar endurnýjunarþarfar þegar frá líður.

1) Færð upp með vísitölu samneyslu til áætlaðs verðlags 2013.

2) Að undanskildum vaxtagjöldum, töpuðum kröfum og lífeyrisskuldbindingum.

Tengt efni:

SMELLTU HÉR TIL AÐ SÆKJA NÝTT RIT SA UM SKATTAMÁL ATVINNULÍFSINS (PDF)

Skattarit SA 2012 - forsíða