Skattar hækka um 22,5 milljarða 2013 - auknar líkur á stöðnun

Umtalsverðar skattahækkanir eru boðaðar á næsta ári í nýju fjárlagafrumvarpi en samkvæmt útreikningum Samtaka atvinnulífsins er um að ræða auknar álögur á einstaklinga og fyrirtæki upp á samtals 22.500 milljónir króna ef veiðigjöld eru tekin með í reikninginn. Það gera um 62 milljónir á dag, allt árið um kring.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Morgunblaðið augljóst að þessar skattahækkanir dragi verulega úr svigrúmi fyrirtækja til að fjárfesta og það eitt og sér auki líkur á stöðnun í atvinnulífinu. Halldór Árnason, hagfræðingur hjá SA, er á sama máli og bendir á að þessi viðbótarskattlagning slagi hátt í þá fjárhæð sem áætlað er að tekjuskattur fyrirtækja skili ríkissjóði eða um 35 milljörðum. Að taka svo háa fjárhæð út úr atvinnulífinu á einu ári hafi mikil neikvæð áhrif.

Í fréttaskýringu Morgunblaðsins í dag segir Vilhjálmur Egilsson að umræddar skattahækkanir auki hættuna á því að hagvöxtur verði áfram lágur og atvinnuleysi of hátt. Auknar fjárfestingar þurfi til að efla hagvöxtinn en ein forsenda gildandi kjarasamninga hafi verið að fjárfestingar tækju við sér.

Á myndinni hér að neðan má sjá skiptingu hinna nýju skatta en nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu 19. september.  Þar kemur m.a. fram að boðaðar séu enn frekari hækkanir milli 2013 og 2014.

Mynd: Morgunblaðið. Smelltu á myndina til að stækka.
Mynd: Morgunblaðið. Smelltu á myndina til að stækka.

Halldór Árnason segir brýnasta málið í efnahagsmálum þjóðarinnar að koma atvinnulífinu aftur af stað. "Við vitum að mörg fyrirtæki eru skuldsett og þau hugsa væntanlega fyrst og fremst um það að lækka sínar skuldir og fjárfesta þá lítið á meðan. Þau fyrirtæki sem eru minna skuldsett ættu þá að hafa meiri möguleika á að fjárfesta og þar með að skapa ný störf og aukin verðmæti. Það myndi bæði draga úr atvinnuleysi, auka hagvöxt og auka tekjur ríkissjóðs. Ef það svigrúm sem fyrirtæki hafa er hins vegar skattlagt með auknum gjöldum er ekkert svigrúm eftir til fjárfestingar. Þá er sama hvað skatturinn heitir."

Sjá nánar í Morgunblaðinu 19. september 2012.