Skattar fyrirtækja verði ekki yfir 15%

Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins að ef við vildum halda forystuhlut okkar á sviði skattamála ættum við að stefna að því að skattar á fyrirtæki yrðu ekki yfir 15% í framtíðinni. "Kanslari Þýskalands krafðist þess á dögunum að skattar Evrópuríkjanna verði samræmdir hið fyrsta. Hljómar svo sem ekki illa. En því miður er samræmingin öll að háskattalöndunum. Þannig vill kanslarinn að skattar á fyrirtæki í öllum Evrópulöndum hækki í 43% eins og þeir eru í Þýskalandi. Það fellur ekki vel að okkar stefnu. Ef við viljum halda forystuhlut okkar í þeim efnum ættum við þvert á móti að stefna að því að þeir skattar verði ekki yfir 15% í framtíðinni."

Kjarasamningar í samræmi við greiðslugetu atvinnuveganna

Forsætisráðherra fjallaði um góðan hagvöxt allt frá árinu 1995. "Mestu skiptir að kaupmátturinn hefur vaxið jafnt og þétt í heilan áratug. Þessi langi samfelldi tími vaxandi kaupmáttar sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi þess að kjarasamningar séu í samræmi við greiðslugetu atvinnuveganna. Það er síðan verkefni okkar allra að búa atvinnulífinu þannig aðstæður að greiðslugetan verði sem mest. Þannig fær launafólk mest í sinn hlut. Nýgerðir kjarasamningar eru til langs tíma. Það er mikill kostur. Friður á vinnumarkaði er forsenda þess að fyrirtæki geti skipulagt starfsemi sína þannig að gagn sé að. Framundan er því mikið tækifæri fyrir Ísland og nú ríður á að nýta það vel."

Þakkir til Samtaka atvinnulífsins

Að lokum ítrekaði forsætisráðherra þakkir sínar til forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins. "Samtökin gegna lykilhlutverki í íslensku atvinnulífi og á engan hallað þegar á það er bent hversu stóran þátt þau ásamt viðsemjendum eiga í þeim ágæta stöðugleika sem nú ríkir í atvinnulífi þjóðarinnar. Ég óska forystumönnum samtakanna alls hins besta á nýju starfsári og óska þess að í störfum sínum verði þeir farsælir og giftudrjúgir. Þegar þeim tekst best upp hagnast öll þjóðin."

Forsætisráðherra fjallaði ennfremur um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar, stækkun Evrópusambandsins, stöðu EES-samningsins o.fl.

Sjá ræðu forsætisráðherra á vef forsætisráðuneytisins.