Skattalækkun á hótel- og veitingahúsarekstur

Velta í hótel- og veitingarekstri jókst um tæplega 50% á árabilinu 2000-2005 eða um rúmlega 8% ári að jafnaði. Að frádreginni verðbólgu á tímabilinu nemur raunvöxturinn rúmum 20% á þessum fimm árum eða sem nemur 4% raunvexti árlega. Rekstraraðilar voru 1.255 árið 2005 og fjölgaði um 140 á þessu árabili. Þessi hraði vöxtur endurspeglar m.a. fjölgun erlendra ferðamanna og aukinn kaupmátt landsmanna.

Hótelgisting ber nú 14% virðisaukaskatt en þjónusta veitingahúsa 24,5%. Ákveðið endurgreiðslukerfi á þó að tryggja að seld matvæli á veitingahúsum beri sem næst 14% skatt. Reglan er sú að veitingahúsum er endurgreidd fjárhæð er nemur 112,5% af innskatti vegna matvælaaðfanga sem bera 14% skatt.

Þann 9. október sl. ákvað ríkisstjórnin að lækka virðisaukaskatt í 7% á þjónustu hótela og veitingahúsa frá og með 1. mars á næsta ári. Þetta er umtalsverð skattalækkun á þessar atvinnugreinar sem mun ótvírætt að stórefla ferðaþjónustu í landinu. Þá er skattalækkunin til þess fallin að bæta skattskil og draga úr svartri atvinnustarfsemi.

Heildarvelta, án virðisaukaskatts, í hótel- og veitingahúsarekstri nam tæplega 40 milljörðum króna á árinu 2005, skv. upplýsingum ríkisskattstjóra. Fimmtungur veltunnar rennur frá hótelrekstri, sem ber 14% skatt, en fjórir fimmtu hlutar frá veitingarekstri, sem ber 24,5% skatt, sem að hluta er endurgreiddur. Samtals voru 3,7 milljarðar króna lagðir á þennan rekstur í virðisaukaskatt á árinu 2005 og þar af bar hótelrekstur rúmar 500 milljónir króna en veitingareksturinn 3,2 milljarða. Frá þessari álagningu dróst 1,1 milljarður í endurgreiðslu vegna sölu á mat þannig að í heild voru lagðir 2,6 milljarða króna í virðisaukaskatt á þennan rekstur.

Áætlun um áhrif lækkunar virðisaukaskatts á hótel- og veitingarekstur

Áætlun um áhrif lækkunar virðisaukaskatts á hótel-

Upphæðir í milljónum króna. Heimild ríkisskattstjóri.

Áfengisgjald mun hækka á móti lækkun VSK

Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar munu bæði hótel og veitingahús bera 7% virðisaukaskatt frá 1. mars 2007 og þar með verða endurgreiðslur augljóslega lagðar af. Í því felst veruleg skattalækkun á atvinnugreinina og má leiða líkur að því að út- og innskattur muni nema svipuðum fjárhæðum eftir lækkun virðisaukaskattsins, þannig að þessi atvinnugreinin muni ekki skila neinum virðisaukaskatti. Ástæðan fyrir þessu er hinn mikli munur sem verður á almenna og lægra þrepinu en talsverður hluti aðfanga veitinga- og gistihúsa er skattlagður í hærra þrepinu og þannig verður innskattur tiltölulega mikill í samanburði við útskatt. Miðað við veltu ársins 2005 hefði útskattur, miðað við 7% hlutfall, numið 2,7 milljörðum króna en erfiðara er að meta áhrif skattalækkunarinnar á innskatt. Árið 2005 nam innskattur 4,8 milljörðum króna og sé til dæmis gert ráð fyrir að 2 milljarðar hafi komið frá aðföngum í 14% þrepi, sem lækkar í 7%, og afgangurinn frá drykkjarvörum og öðrum vörum í 24,5% þrepi, sem annað hvort lækkar í 7% eða verður óbreytt, þá fæst sú niðurstaða að innskatturinn muni nema 2,8 milljörðum króna eða svipaðri fjárhæð og útskatturinn nemur. Sé þessi áætlun nærri lagi mun skattalækkunin verða jafn há virðisaukaskattgreiðslum greinarinnar sem námu 2,6 milljörðum króna árið 2005. Á móti þessari lækkun, sem í þessum áætlunum er einnig látin ná til virðisaukaskatts á áfenga drykki, er ekki ólíklegt að áfengisgjald verði hækkað, þótt um það hafi ekkert komið fram af hálfu stjórnvalda í tengslum við ákvörðunina um skattalækkunina.