Efnahagsmál - 

06. september 2001

Skattalækkun á fyrirtæki tímabær

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skattalækkun á fyrirtæki tímabær

Það er ánægjulegt að sjá hve vel fjármálaráðherra hefur tekið í sjónarmið Samtaka atvinnulífsins um stöðuna í atvinnulífinu og nauðsynlegar lagfæringar á starfsumhverfi fyrirtækja. Er undir það tekið í vefriti fjármálaráðuneytisins í síðustu viku, að bæði þurfi að lækka vexti og skatta.

Það er ánægjulegt að sjá hve vel fjármálaráðherra hefur tekið í sjónarmið Samtaka atvinnulífsins um stöðuna í atvinnulífinu og nauðsynlegar lagfæringar á starfsumhverfi fyrirtækja. Er undir það tekið í vefriti fjármálaráðuneytisins í síðustu viku, að bæði þurfi að lækka vexti og skatta.

Það er hárrétt að í þeirri stöðu sem uppi er í íslensku efnahagslífi, þar sem samdráttur er farinn að gera rækilega vart við sig, er nauðsynlegt að hlúa að starfsskilyrðum fyrirtækjanna

Í skýrslu skattahóps SA frá síðasta aðalfundi  er fjallað um hvernig mörg Evrópuríki hafa að undanförnu lækkað verulega tekjuskatta á fyrirtæki og bent á að ef fram heldur sem horfir verði þess ekki langt að bíða að Ísland standi langt að baki helstu viðskiptalöndum sínum hvað skattbyrði fyrirtækja varðar. Jafnframt er bent á að eignarskattar á fyrirtæki eru nánast óþekkt skattform í helstu viðskiptalöndum Íslendinga og að innheimta stimpilgjalda hefur á undanförnum árum verið á hröðu undanhaldi hjá öðrum ríkjum. 

Það er mikilvægt að átta sig á því að starfsskilyrði fyrirtækja og þar með breytingar á skattaumhverfi þarf að skoða með hliðsjón af langtímahagsmunum þjóðarinnar af því að hafa hér öflugt atvinnulíf sem geti staðið undir góðum lífskjörum. Nú höfum við opnað hagkerfið og keppum beint við önnur lönd um þau starfsskilyrði sem við bjóðum fyrirtækjunum til þess að vaxa og bera arð. Að halda til streitu óhagstæðum mun gagnvart öðrum löndum, varðandi t.d. eignarskatt og stimpilgjöld,  veikir allt efnahagslífið og tekjugrundvöll ríkisins til framtíðar. Afnám aðstöðugjaldsins árið 1993 átti tvímælalaust þátt í að koma hjólum efnahagslífsins af stað á nýjan leik eftir síðasta stöðnunar- og samdráttarskeið, sem stóð í um hálfan áratug. Við höfum nú reynslu af því hvernig vel heppnuð breyting á lögum um fjármagnstekjuskatt hefur stóraukið tekjur ríkisins af þeim skatti, þrátt fyrir lægri skattprósentu. Sama mun verða uppi á teningnum varðandi tekjuskattsprósentu fyrirtækja. Af þessum ástæðum er það röng ályktun að óhagstæður viðsnúningur í tekjum og gjöldum ríkisins eigi að raska langtímasjónarmiðum um umbætur í skattamálum. Rétt viðbrögð eru einmitt að leysa úr læðingi meiri framsækni og umsvif með vel heppnuðum skattabreytingum.

Núverandi vandi opinbers rekstrar er útgjaldavandi en ekki tekjuvandi, eins og sést best á því að hlutfall samneyslu hefur frá árinu 1996 hækkað úr um 21% af landsframleiðslu í um 24%, þrátt fyrir hinn mikla vöxt landsframleiðslu sem verið hefur á tímabilinu. Líkt og fyrirtækin í landinu þurfa ríki og sveitarfélög að bregðast við samdrætti með því að velta við hverjum steini í sínum rekstri, leita hagræðingar og endurskoða öll útgjaldaáform.

Samtök atvinnulífsins