Skattahækkanir vanmetnar í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Samtök atvinnulífsins telja að svigrúm ríkisstjórnarinnar til skattahækkana á árunum 2009-2011 sé nú þegar fullnýtt og ná verði markmiðum um bætta afkomu ríkissjóðs 2011 með gjaldalækkunum. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 8. apríl eru skattahækkanir á Íslandi vanmetnar um 2% af landsframleiðslu en samkvæmt fjárlögum 2010 aukast skatttekjur ríkissjóðs um 50 milljarða króna frá fjárlögum 2009 að teknu tilliti til samdráttar í eftirspurn en útgjöld ríkissjóðs að frátöldum vaxtagjöldum aukast um 2 milljarða króna. Til að ná yfirlýstum markmiðum um jafnvægi í ríkisfjármálum verður þörf á aðgerðum til að bæta afkomu ríkissjóðs í fjárlögum 2011 sem nema allt að 3% af landsframleiðslu eða um 50 milljörðum króna og um 2% af landsframleiðslu hvort ár 2012 og 2013.

Í stöðugleikasáttmálanum frá júní 2009 var fjallað um það hvernig dregið yrði úr hallarekstri ríkissjóðs með lækkun útgjalda og hækkun skatta næstu árin. Gert var ráð fyrir því að skattahækkanir brúuðu að hámarki 45% af fjárþörf til aðlögunar í ríkisfjármálum samtals á tímabilinu 2009 - 2011.

Frá miðju ári 2009 hafa stjórnvöld gripið til margvíslegra aðgerða til lækkunar á útgjöldum og hækkunar á tekjum ríkisins. Fjármálaráðuneytið metur að aðgerðir áranna 2009-2010 lækki útgjöld ríkissjóðs í fjárlögum 2010 um ríflega 52 ma. kr. frá því sem ella hefði orðið, eða sem nemur um 3,2% af landsframleiðslu. Með sama hætti hafa Samtök atvinnulífsins, m.a. á grundvelli upplýsinga í skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar og nefndarálitum meirihlutans, áætlað að skattahækkanir áranna 2009 og 2010 skili ríkissjóði tæplega 70 ma. kr. meiri tekjum á árinu 2010 en að óbreyttum skattstofnum eða 4,5% af landsframleiðslu.

Samkvæmt framangreindu mati fjármálaráðuneytis og Samtaka atvinnulífsins skiptast áhrif aðgerða frá miðju ári 2009 til lækkunar á halla ríkissjóðs í fjárlögum 2010 þannig að skattahækkanir standa fyrir um 58% af heild á meðan að útgjaldalækkanir standa einungis fyrir um 42%.

Samtök atvinnulífsins hafa því lagt áherslu á að svigrúm til skattahækkana væri fullnýtt á tímabilinu 2009-2011 og markmiðum um bætta afkomu ríkissjóðs árið 2011 yrði að ná með gjaldalækkunum.

Þennan málflutning hafa oddvitar ríkisstjórnarinnar véfengt og vísað til opinberra talna, sem e.t.v. eiga rætur að rekja til greinagerðar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) við aðra endurskoðun  samstarfsáætlunar Íslands og sjóðsins frá 8. apríl sl. Þar kemur fram að AGS metur aðgerðir stjórnvalda til lækkunar útgjalda í fjárlögum 2010 til 3,2% af landsframleiðslu, líkt og fjármálaráðuneytið, en að áhrif skattahækkana svari til 2,4% af landsframleiðslu eða sem nemur um 40 ma.kr.

Svo virðist sem að mat AGS byggist á nettóáhrifum skattbreytinga á skatttekjur, þ.e. að teknu tilliti til samdráttar í eftirspurn. Ennfremur virðist sem AGS taki ekki með í sinn reikning þær skattahækkanir sem tóku gildi á síðari hluta ársins 2009 og komu ekki að fullu til framkvæmda fyrr en á þessu ári. Hér er því verið að meta nettóáhrif á meðan að áhrif aðgerða á gjaldahlið eru metin brúttó. AGS metur því augljóslega áhrif aðgerða með ólíkri aðferð eftir því hvort um er að ræða gjaldalækkanir eða skattahækkanir. Þessu til staðfestu má nefna að samkvæmt fjárlögum 2010 aukast skatttekjur ríkissjóðs um 50 ma.kr. frá fjárlögum 2009 að teknu tilliti til samdráttar í eftirspurn en útgjöld ríkissjóðs að frátöldum vaxtagjöldum aukast (en ekki lækka) um 2 ma.kr.

Gert er ráð fyrir að þriðju endurskoðun á samstarfsáætlun ríkisstjórnarinnar og AGS ljúki fyrir mitt ár 2010. Liður í þeirri endurskoðun er að fara yfir forsendur í ríkisfjármálum. Til þess að ná yfirlýstum markmiðum um jafnvægi í ríkisfjármálum verður þörf á aðgerðum til að bæta afkomu ríkissjóðs sem nema allt að 3% af landsframleiðslu eða um 50 ma. kr.  í fjárlögum 2011 og um 2% af landsframleiðslu hvort ár 2012 og 2013. Samtök atvinnulífsins telja  einsýnt að aðgerðir í ríkisfjármálum til bættrar afkomu ríkissjóðs hljóti í fjárlögum 2011 nær eingöngu afmarkast við gjaldahlið fjárlaga.