Skattahækkanir frá 2008 nema einni milljón á ári á fjölskyldu

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, fylgdi nýjum tillögum SA að breytingum á skattkerfinu úr hlaði á opnum kynningarfundi í Hörpu í morgun. Erindi hans er nú aðgengilegt á vef SA. Í máli hans kom fram að skattahækkanir frá árinu 2008, varlega metið, hafi numið 87 milljörðum króna á verðlagi ársins 2013. Það samsvari 4,5% af vergri landsframleiðslu. Annar mælikvarði á hækkanirnar er að þær nemi árlega að meðaltali 270 þús. kr. á hvern íbúa eða einni milljón króna á fjögurra manna fjölskyldu. SA leggja til að á næstu árum verði stigið eitt skref til baka í skattahækkanahrinu undanfarinna ára, og álögur á fólk og fyrirtæki verði lækkaðar.

Þær skattalækkanir sem SA leggja til samsvara 47 milljarða skattalækkun í kyrrstöðu mynd en áhrif þeirra yrðu jákvæð fyrir tekjur hins opinbera til lengri tíma þar sem þær myndu stuðla að auknum vexti og þar með stærri skattstofnum.

Erindi Hannesar má lesa í heild hér að neðan:

Fyrir fundinum liggur skýrsla sem unnin var af starfshópi fulltrúa frá SA, aðildarfélögum þess og stóru endurskoðunarfyrirtækjunum.

Þar er sett fram það meginsjónarmið að skattheimtu er ekki hægt að þenja út fyrir tiltekin mörk án þess að hún rýri skattstofnana. Í stað skattahækkana eru auknar fjárfestingar sem leiða til aukinnar verðmætasköpunar og fjölgunar starfa forsendur varanlegrar tekjuaukningar hins opinbera. Margar breytingar á íslenskri skattalöggjöf undanfarin þrjú ár hafa verið til þess fallnar að draga úr fjárfestingum og vilja til þátttöku í atvinnurekstri og vinna þannig gegn langtímahagsmunum þjóðarinnar.

Hannes G. Sigurðsson

Skattkerfið á fyrst og fremst að vera skilvirkt tekjuöflunartæki ríkissjóðs og sveitarfélaga, skattstofnar breiðir og skattprósentur fáar og lágar. Niðurstaða alþjóðlegra rannsókna eru að markmiðum um jafnari tekjuskiptingu verði best náð með aðgerðum á útgjaldahlið opinberra fjármála.

Um og upp úr miðjum síðasta áratug var íslenska skattkerfið ágætlega samkeppnishæft, skilvirkt og einfalt í samanburði við skattkerfi annarra landa.  Slíkir eiginleikar eru eftirsóknarverðir því þeir stuðla að betri skilningi skattborgaranna, draga úr skattsvikum og lækka kostnað skattyfirvalda og almennings.

Árið 2007 gaf forsætisráðuneytið út handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem finna  má á vef ráðuneytisins. Þar segir að samráð við hagsmunaaðila sé mikilvægt til þess að koma auga á áhrif stjórnarfrumvarpa og það sé eðlilegt að þeir sem ákvarðanir varða eigi kost á að hafa áhrif á efni þeirra. Þá skuli einnig fara fram faglegt og hlutlægt mat á áhrifum frumvarpanna sem leiði í ljós þær afleiðingar sem samþykkt þeirra muni hafi í för með sér. Þessi stefnumörkun er í samræmi við leiðbeiningar OECD sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja og viðtekin venja í nágrannalöndunum.

Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin tekið upp nýja skattstofna og hækkað aðra sem þrengt hafa að fyrirtækjum. Breytingar hafa yfirleitt verið gerðar með miklum hraða og án samráðs við atvinnulífið. Slík vinnubrögð eiga ekki að tíðkast í þróuðu samfélagi.

Fyrirtæki og heimili taka ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna og skuldsetningu meðal annars á forsendum um skattlagningu. Miklar, örar og handahófskenndar skattabreytingar eins og verið hafa undanfarin ár skapa óvissu sem rýrir hag landsmanna til lengri tíma.

Ekki þarf að fjölyrða um að verulega skortir á að stjórnvöld hafi hafi haft fullnægjandi samráð við hagsmunaaðila og lagt fullnægjandi mat á áhrif þeirra fjölmörgu breytinga á skattalegu umhverfi atvinnulífsins sem gerðar hafa verið á undanförnum árum. Nægir að nefna lög um veiðigjald á útgerðarfyrirtæki og áform um hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu því til staðfestingar.

Hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar í skattamálum var sett fram með einkar skýrum hætti í frumvarpi til laga um tekjuöflun ríkisins í nóvember 2009. Kenningin var sú að ríkisútgjöld sem fjármögnuð væru með sköttum hefðu örvandi áhrif á hagkerfið, annað væri misskilningur. Þessi áhrif væru byggð á fræðilegum kenningum og athugunum með þjóðhagslíkönum, m.a. hér á landi. Því væri skynsamlegt að beita skattahækkunum til að draga úr halla ríkissjóðs þar sem þær hefðu minni áhrif til að lækka landsframleiðslu þegar til skemmri tíma er litið en niðurskurður útgjalda af sömu stærðargráðu.

Í fyrirliggjandi skýrslu er því haldið fram að þessi kenning ríkisstjórnarinnar styðjist ekki við rannsóknir á áhrifum skattahækkana. Vitnað er til þekktrar rannsóknar á því hvaða áhrif samsetning aðlögunar ríkisfjármála, þ.e. hvort  skattar væru hækkaðir eða gjöld lækkuð,  hefði  á halla ríkissjóðs til lengri tíma og efnahagslífið almennt. Megin niðurstaðan var sú að aðlögun sem byggðist aðallega á lækkun útgjalda til tekjutilfærslna og launa opinberra starfsmanna væri líklegust til þess að skila árangri og væri hvetjandi fyrir efnahagslífið. Á hinn bóginn væri aðlögun sem byggðist aðallega á skattahækkunum og samdrætti opinberra fjárfestinga ekki líkleg til varanlegs árangurs og stuðlaði að samdrætti. Rannsóknin byggðist á gögnum frá ríkjum OECD.

Í skýrslunni er lagt mat á þær fjárhæðir sem hækkanir á 19 skattstofnum undanfarin ár hafa skilað ríkissjóði. Upptalningin er ekki tæmandi en nær til þeirra tekjustofna sem mestu máli skipta fyrir ríkissjóð. Þar vantar t.d. hækkanir fjölmargra liða sem flokkast undir aukatekjur ríkissjóðs. Niðurstaðan er sú að skattahækkanir hafi numið 87 milljörðum króna á verðlagi ársins 2013. Það samsvarar 4,5% af vergri landsframleiðslu. Annar mælikvarði á hækkanirnar er að þær nema árlega að meðaltali 270 þús. kr. á hvern íbúa eða einni milljón króna á fjögurra manna fjölskyldu.

Samtök atvinnulífsins leggja til að allar skaðlegar skattahækkanir á atvinnulífið gangi til baka í áföngum á næstu fjórum árum til að bæta samkeppnishæfni atvinnulífsins, örva fjárfestingar, atvinnusköpun og þar með hagvöxt. Þær skattalækkanir sem SA leggja til samsvara 47 milljarða skattalækkun í kyrrstöðu mynd en áhrif þeirra yrðu jákvæð fyrir tekjur hins opinbera til lengri tíma þar sem þær myndu stuðla að auknum vexti og þar með stærri skattstofnum.

Tillögurnar eru eftirfarandi í röð eftir fjárhæðum:

 • Veiðigjöld fari í sama horf og árið 2010. Breið sátt ætti að geta skapast um veiðigjöld af þeirri stærðargráðu.

 • Tekjuskattur hlutafélaga verði lækkaður á ný í 15% í áföngum. Alþjóðleg þróun er til lægra hlutfalls.

 • Auðlegðarskattur verði afnuminn, hann verði tímabundinn eins og lofað var þegar hann var innleiddur.

 • Tryggingagjald verði lækkað til samræmis við minnkandi atvinnuleysi eins og lofað var í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í maí 2011.

 • Fjármagnstekjuskattur verði færður til fyrra horfs. Ef ekki er vilji til þess að lækka hlutfallið þá verði að endurskoða skattstofninn en 10% hlutfallið byggði á mjög breiðum stofni.

 • Vörugjöld á tiltekin matvæli verði afnumin á ný. Afnám þeirra verði fjármagnað með 1-2% hækkun lægra þreps VSK.

 • Fallið verði frá áformum um hækkun VSK á gistiþjónustu. Hækkunin mun ekki skila ríkissjóði auknum tekjum.

 • Orkuskattur verði afnuminn. Staðið verði við skriflegt samkomulag ríkisstjórnarinnar við orkufyrirtækin og SA sem gert var í desember 2009. Samningar eiga að standa.

 • Fallið verði frá hækkunum fjársýsluskatts. Samkomulag sem ríkisstjórnin gerði við fjármálafyrirtækin við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár gildi áfram.

 • Stimpilgjöld verði afnumin í áföngum.

 • Kolefnisgjald verði lækkað sem nemur tekjum ríkissjóðs af uppboðum losunarheimilda.

 • Fallið verði frá áformum um hækkun vörugjalds af bílaleigubílum. Það er ljóst að hvorki ríkissjóður né þjóðarbúið muni uppskera auknar tekjur af þessari skattahækkun.

Þessi upptalning felur ekki í sér kröfur um stórkostlegar skattalækkanir. Umfangið nemur 2,5% af landsframleiðslu og þeim er ekki ætlað að vera framkvæmdar í einu vetfangi. Þær munu allar stuðla að styrkari fjármálum hins opinbera til lengri tíma á grundvelli aukinna fjárfestinga atvinnuveganna og þar með aukinnar verðmætasköpunar og atvinnu.

Sjá nánar:

Glærukynning Hannesar G. Sigurðssonar

SMELLTU HÉR TIL AÐ SÆKJA NÝTT RIT SA UM SKATTAMÁL ATVINNULÍFSINS (PDF)

Tengt efni:

Sjónvarpsfrétt RÚV 9.11. - smelltu til að horfa

Skattarit SA 2012 - forsíða