Sjávarútvegsdagurinn á morgun í Hörpu kl. 8.30-10

Miðvikudaginn 8. október standa Deloitte, LÍÚ, SF og SA að Sjávarútvegsdeginum í Hörpu. Á morgunverðarfundi kl. 8.30-10 verða málefni sjávarútvegsins rædd frá ýmsum hliðum. Afkoma greinarinnar 2013, þjóðhagslegt mikilvægi, nýsköpun, markaðsmál, rannsóknir og þróun og girnilegur matur verður m.a. til umfjöllunar. Fundurinn fer fram í Silfurbergi og boðið verður upp á léttan morgunverð frá kl. 8. Fulltrúar fjölmiðla eru hjartanlega velkomnir á fundinn.

Þetta er í fyrsta sinn sem Sjávarútvegsdagurinn er haldinn. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, flytur opnunarerindi ráðstefnunnar. Áhugaverðar upplýsingar verða birtar úr gagnagrunni Deloitte um sjávarútveg en hann inniheldur verðmætar upplýsingar úr ársreikningum félaga sem hafa yfir að ráða hátt í 90% af úthlutuðum aflaheimildum. Gagnagrunnurinn nær aftur til aldamóta.

Á ráðstefnunni verða birtar nýjar tölur um afkomu greinarinnar, fyrstu tölur sem hægt er að birta úr ársreikningum fyrir sjávarútveginn í heild fyrir árið 2013. Tölurnar eru nauðsynlegur grunnur fyrir umræðu um veiðigjöld.

Dagskrá Sjávarútvegsdagsins 2014

Setning: Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra

Afkoma sjávarútvegsins 2013 – sjávarútvegsgagnagrunnur Deloitte – Jónas Gestur Jónasson, löggiltur endurskoðandi og meðeigandi Deloitte

Konur í karlaheimi!  Skiptir það máli? – Erla Björg Guðrúnardóttir, framkvæmdastjóri Marz Seafood

Styrk stoð í atvinnulífinu – Ólafur Garðar Halldórsson, hagfræðingur á efnahagssviði SA

Þróun, aðferðir og afurðir – Ólafur Helgi Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma og Primex

Mikilvægi íslensks sjávarútvegs í starfsemi Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna – Þór Ásgeirsson, aðstoðarforstöðumaður Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Fundarstjórn – Margrét Sanders, formaður SVÞ, Samtaka verslunar og þjónustu og framkvæmdastjóri Deloitte.

Brugðið verður upp svipmyndum af tveimur meistarakokkum í Washington og London þar sem þeir fjalla um íslenskt sjávarfang og tækifærin í hafinu umhverfis Ísland.

Þátttökugjald kr. 3.900 með morgunverði.

Skráning í tölvupósti á skraning@deloitte.is    

DAGSKRÁ SJÁVARÚTVEGSDAGSINS 2014 (PDF)