Efnahagsmál - 

11. febrúar 2019

Sígandi lukka

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sígandi lukka

Gangi hagspá Seðlabankans eftir verður hagvöxtur 1,8% á þessu ári, sá minnsti síðan árið 2012. Vegna fólksfjölgunar verður hagvöxtur á hvern íbúa neikvæður en það gerðist síðast árið 2010. Spá bankans er órækur vitnisburður um þann mikla viðsnúning sem orðið hefur í efnahagslífinu undanfarna mánuði. Uppsveiflu efnahagslífsins, sem staðið hefur linnulaust í átta ár, er lokið og framundan er aðlögun að þeirri staðreynd. Öllum er enn í fersku minni djúp efnahagskreppa fyrir áratug og sameiginlegt átak þjóðarinnar við að forða kollsteypu í efnahagslífinu.

Gangi hagspá Seðlabankans eftir verður hagvöxtur 1,8% á þessu ári, sá minnsti síðan árið 2012. Vegna fólksfjölgunar verður hagvöxtur á hvern íbúa neikvæður en það gerðist síðast árið 2010. Spá bankans er órækur vitnisburður um þann mikla viðsnúning sem orðið hefur í efnahagslífinu undanfarna mánuði. Uppsveiflu efnahagslífsins, sem staðið hefur linnulaust í átta ár, er lokið og framundan er aðlögun að þeirri staðreynd. Öllum er enn í fersku minni  djúp efnahagskreppa fyrir áratug og sameiginlegt átak þjóðarinnar við að forða kollsteypu í efnahagslífinu.

Nú blasa við gerbreyttar aðstæður eins og staða heimila landsins staðfestir:

1. Mikill kaupmáttur
Undanfarin ár hafa heimilin notið góðs af mikilli uppsveiflu í efnahagslífinu. Kaupmáttur heimila hefur aukist um 40% frá árinu 2010 en til samanburðar jókst kaupmáttur heimila um 21% í uppsveiflunni þar á undan, á árunum 1999-2007. Ráðstöfunartekjur heimila eru í hæstu hæðum sé litið til sögulegs samanburðar. Hvort sem horft er til kaupmáttar ráðstöfunartekna starfsfólks á meðallaunum eða lægstu launum, þ.e. tekna eftir greiðslu tekjuskatta og barna- og húsnæðisbóta, þá eru þær einna hæstar meðal OECD ríkja. Það er öfundsverð staða. Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að kaupmáttur heimila vaxi áfram en að vöxturinn verði heldur minni en verið hefur sem er eðlilegt samfara því sem hægir á vexti efnahagslífsins á komandi árum.

2. Lágar skuldir heimilanna
Skuldahlutfall heimila er í sögulegu lágmarki. Skuldir þeirra í  hlutfalli við ráðstöfunartekjur fóru hæst í 125% á árinu 2010. Nú nema þær 75% af ráðstöfunartekjum. Heimilin hafa því greitt niður skuldir  samfara vaxandi tekjum og lítilli verðbólgu.

3. Mikill sparnaður
Sparnaður heimila hefur aldrei verið meiri. Mikill sparnaður og lítil skuldsetning endurspeglar sterka stöðu heimila um þessar mundir sem er sérstaklega mikilvægt nú þegar blikur eru á lofti og aðlögun framundan í efnahagslífinu.

Margt hefur áunnist á síðustu árum og viðsnúningur efnahagslífsins verið undraverður. Nú er landsframleiðslan 25% meiri en þegar hún varð hæst í síðustu uppsveiflu. Heimili landsins, fyrirtæki og hið opinbera, hafa greitt niður skuldir og skuldahlutföll eru í sögulegum lágmörkum. Þá hefur hrein erlend staða þjóðarbúsins þróast á afar jákvæðan máta. Íslenskt hagkerfi er hreinn lánveitandi gagnvart útlöndum, sem er einsdæmi í hagsögu landsins.

Um þessa stöðu þarf að standa vörð. Þó framundan sé aðlögun í efnahagslífinu er staðan ekki sambærileg og fyrir áratug síðan og skiptir þar miklu sterk fjárhagsstaða heimila og þjóðarbúsins í heild. Ekkert er því til fyrirstöðu að halda áfram á sömu braut, en framhaldið er í höndum aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda. Ef ákvarðanir næstu vikna ógna efnahagslegum stöðugleika getur sú sviðsmynd sem Seðlabankinn setur fram hæglega breyst til hins verra. Við skulum sameinast um að forða því.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9.febrúar 2019.

 

 

Samtök atvinnulífsins