SFF: Niðurfærsla lána einstaklinga 143,9 milljarðar króna í 80 þúsund málum

Lán heimila höfðu í lok júlí 2011 verið færð niður um 143,9 milljarða króna frá bankahruni. Þetta kemur fram í upplýsingum sem Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa aflað meðal aðildarfélaga sinna, hjá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum. Þar kemur einnig fram að rúmlega 87 þúsund lántakar hafa fengið eða leitað eftir niðurfærslu hjá fjármálafyrirtækjum, Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum á grunni 110% leiðar, sértækrar skuldaaðlögunar og endurútreiknings á gengistryggðum fasteignaveðlánum og  bílalánum.

Í tilkynningu SFF kemur fram að tæplega 80 þúsund málum er nú lokið. Í tilkynningunni segir ennfremur:

"Í lok júlí höfðu um 79.600  mál verið afgreidd og tæplega 1.300 umsóknum verið hafnað hjá lánveitendum.  Um 6.200 mál voru enn í vinnslu og því er ljóst að talan 143,9 milljarðar á eftir að hækka þegar úrvinnslu þeirra mála lýkur.

Sótt hafði verið um niðurfærslu rúmlega 13.400 lána á grunni hinnar svokölluðu 110% leiðar.    Samþykktar höfðu verið um 7.500 umsóknir, um 1.100 hafnað og tæplega 4.800 umsóknir voru enn í vinnslu. Afgreiðsla þessara mála hefur leitt til niðurfærslu á lánum upp á 18,7 milljarða króna.

Ef sérstaklega er horft til upplýsinga frá Íbúðalánasjóði, sem er hluti af þessum tölum, kemur í ljós að Sjóðnum hafa borist yfir 5.000 umsóknir um 110% leiðina. Íbúðalánasjóður hafði um síðastliðin mánaðarmót samþykkt 632 umsóknir, hafnað 543 og ríflega 3.900 voru í vinnslu. Lán viðskiptavina Sjóðsins hafa verið færð niður um rúma 1,6 milljarða króna vegna þessa. Sambærilegar tölur fyrir lífeyrissjóðina sýna að fjöldi umsókna var hátt í 500. 75 umsóknir höfðu verið samþykktar um mánaðarmótin, 210 verið hafnað og 183 voru í vinnslu. Lán viðskiptavina lífeyrissjóða hafa verið færð niður um rúmar 200 milljónir króna.

Rúmlega 1.600 heimili hafa sótt um sértæka skuldaaðlögun. Samþykktar höfðu verið um 820 umsóknir en tæplega 180 verið hafnað, auk þess sem um 600  mál eru enn í vinnslu. Heildarniðurfærsla vegna þessa úrræðis, miðað við júlílok, eru tæpir 5,6 milljarðar króna.

Fjármálafyrirtækin hafa lokið endurútreikningi rúmlega 71 þúsund gengistryggðra lána. Þar af eru 11.800 fasteignalán og 59.400 lán vegna bifreiðaviðskipta. Heildarniðurfærsla fasteignaveðlána vegna endurútreiknings eru tæpir 79 milljarðar króna. Lán vegna bifreiðaviðskipta hafa verið færð niður um 40,6 milljarða króna við endurútreikning.

Hafa ber í huga þegar þessar tölur eru skoðaðar að lántakar kunna í sumum tilvikum að hafa nýtt sér fleiri en eitt af þeim úrræðum sem staðið hafa til boða."

Sjá nánara yfirlit á vef SFF