Setur ríkisstjórnin heimsmet?

Samtök ferðaþjónustunnar mótmæla harðlega hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að hækka verulega virðisaukaskatt á gistingu en fréttastofa RÚV greindi í gær frá áformum um að hækka skattinn úr 7% í 25,5%. Í fréttatilkynningu frá SAF segir að fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra hafi óskað eftir fundi með forystu samtakanna til að ræða þetta mál.

SAF furða sig á þessum hugmyndum og segjast ekki trúa því að þingmönnum og ríkisstjórn detti í hug að veita ferðaþjónustunni slíkt rothögg. " ... að taka atvinnugrein, sem nú er á uppleið og skilar erlendum gjaldeyri sem aldrei fyrr, og skattpína hana út af markaðnum."

Í tilkynningu SAF kemur fram að í langflestum löndum Evrópu er gisting í neðra þrepi virðisaukaskatts með það að markmiði að fjölga ferðamönnum, ekki síst ráðstefnugestum.

"Hvergi er meiri samkeppni en um ráðstefnugesti sem eru meðal verðmætustu gesta.  17,3% verðhækkun til þeirra mun ekki fjölga gestum í Hörpu, sá markaður mun hrynja. Slík stórhækkun skatta verður að sönnu mikill fengur fyrir þá miklu svörtu atvinnustarfsemi sem þrífst í þessari grein og mun auka hana og skekkja þar með enn frekar samkeppnisstöðu þeirra sem vilja fara að lögum. Samtök ferðaþjónustunnar spyrja hvort mönnum sé alvara?"


Í síðustu viku greindi Viðskiptablaðið frá því að Evrópumet hafi verið sett í hækkun skatta á Íslandi undanfarin ár en árið 2010 benti AGS m.a. á að Ísland væri háskattaland í alþjóðlegum samanburði og fara þyrfti mjög varlega í aukna tekjuöflun því annars gæti íslenskt efnahagslífið orðið fyrir alvarlegum skaða. Undir þessi varnaðarorð tóku Samtök atvinnulífsins.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að ekkert samráð hafi verið haft við ferðaþjónustuna um hækkun virðisaukaskatts á gistingu en gangi hún eftir muni það hafa í för með sér hrun fyrir ferðaþjónustuna, einkum þann hluta sem snýr að ráðstefnugestum. Í samtali við fréttastofu RÚV segir Erna jafnframt að Íslendingar muni njóta þess vafasama heiðurs að vera með hæsta virðisaukaskatt á gistingu í heiminum verði hugmyndir ríkisstjórnarinnar að veruleika.

Tengt efni:

Frétt RÚV 8. ágúst - smelltu til að horfa

Fréttatilkynning SAF 8. ágúst 2012

Ísland á Evrópumet í hækkun skatta

Frétt Stöðvar 2 - 8. ágúst - smelltu til að horfa