Vinnumarkaður - 

18. September 2002

Setja þarf reglur um framkvæmd húsleitar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Setja þarf reglur um framkvæmd húsleitar

Á fundi Verslunarráðs um húsleit hjá fyrirtækjum var rík samstaða um að brýn nauðsyn væri á setningu skýrari reglna um framkvæmd húsleitar á vegum Samkeppnis-stofnunar, t.d. í anda þeirra reglna sem gilda um haldlagningu gagna á vegum embættis skattrannsóknar-stjóra. Sumir vildu að stofnunin setti sér slíkar reglur sjálf, aðrir töldu rétt að Alþingi hefði um það forgöngu með breytingu samkeppnislaga.

Á fundi Verslunarráðs um húsleit hjá fyrirtækjum var rík samstaða um að brýn nauðsyn væri á setningu skýrari reglna um framkvæmd húsleitar á vegum Samkeppnis-stofnunar, t.d. í anda þeirra reglna sem gilda um haldlagningu gagna á vegum embættis skattrannsóknar-stjóra. Sumir vildu að stofnunin setti sér slíkar reglur sjálf, aðrir töldu rétt að Alþingi hefði um það forgöngu með breytingu samkeppnislaga.

Skort hefur á sjálfstætt mat dómara
Eiríkur Tómasson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, fjallaði í erindi sínu á fundinum m.a. um dómsúrskurði um húsleit opinberra aðila. Sagði hann héraðsdómara oft í mjög erfiðri stöðu því miklir rannsóknarhagsmunir gætu verið í húfi. Hins vegar hefði skort á að héraðsdómarar legðu sjálfstætt mat á ástæður fyrir húsleit við uppkvaðningu húsleitarheimilda, sem væri ámælisvert út frá sjónahóli réttaröryggis.  Eiríkur sagðist telja að skerpa þyrfti á ákvæðum um húsleit í lögum um opinber mál, setja þeim frekari skilyrði en nú er gert. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi þess að gætt væri meðalhófsreglu og húsleit ekki beitt nema brýna nauðsyn bæri til og önnur úrræði ekki tiltæk.

Viðmiðunarreglur skattrannsóknarstjóra
Skúli Eggert Þórðarson, skattrannsóknarstjóri, gerði grein fyrir reglum embættisins um framkvæmd húsleitar. Þær er annars vegar er að finna í reglugerð en hins vegar í eigin viðmiðunarreglum embættisins, sem m.a. eru settar í samráði við Persónuvernd hvað varðar skoðun á tölvupósti. Meðal þess sem hann nefndi er að við húsleit eru afrit tekin af tölvugögnum, kvittun gefin fyrir þeim frumgögnum sem tekin eru tímabundið til athugunar, tölvupóstur ekki skoðaður nema hann tengist sakarefni, rannsóknarþola gefið færi á að benda á gögn sem ekki varði málið o.fl. Þá sagði hann embættið leitast við að húsleit væri ekki móðgandi eða særandi og að hún taki stuttan tíma. Skúli sagði það grundvallaratriði að leyndar sé gætt um vettvangsathuganir og að langflestum málum hjá embættinu lyki án vitneskju fjölmiðla.

Umfjöllun Skúla vakti mikla athygli, ekki síst þar sem engar slíkar opinberar reglur gilda um húsleitir á vegum Samkeppnisstofnunar.

Brýnt að setja Samkeppnisstofnun reglur
Gunnar Sturluson, hæstaréttarlögmaður hjá Logos lögmannsstofu, fjallaði um húsleit af hálfu samkeppnisyfirvalda. Hann sagðist telja afar brýnt að settar yrðu reglur um framkvæmd húsleitar, líkt og embætti skattrannsóknarstjóri hefur gert. Gunnar sagðist telja að Samkeppnisstofnun ætti að hlutast til um að slíkar reglur yrðu settar, en á fundinum kom hins vegar fram það sjónarmið að eðlilegra væri að Alþingi hefði forgöngu um breytingu á samkeppnislögum, þar sem slíkar reglur yrðu m.a. settar í lög. Aðspurður sagðist Eiríkur Tómasson a.m.k. telja rétt að löggjafinn legði línurnar í þeim efnum og sagði viðmiðunarreglur skattrannsóknarstjóra til fyrirmyndar.

Glærur ræðumanna af fundinum er að finna á vef Verslunarráðs Íslands.

Skýrsla Samtaka atvinnulífsins
Samtök atvinnulífsins hafa í ítarlegri skýrslu borið íslensku samkeppnislögin saman við samkeppnislög nágrannaríkjanna og við Evrópuréttinn, og gert tillögur til úrbóta. Skýrsluna má nálgast hér (á pdf-sniði).

Samtök atvinnulífsins