Seðlabankinn segir erlent starfsfólk hafa jákvæð efnahagsleg áhrif

Samtök atvinnulífsins efndu til morgunverðarfundar um erlent starfsfólk á Íslandi á Grand Hótel Reykjavík og bar fundurinn yfirskriftina Góðir Íslendingar - erlent starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði. Framsögur fluttu Rannveig Sigurðardóttir forstöðumaður greiningar- og útgáfudeildar Seðlabanka Íslands, Ragnar Árnason forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA og Sólveig Jónasdóttir verkefnastjóri hjá Alþjóðahúsi.

Jákvæð heildaráhrif

Í máli Rannveigar Sigurðardóttur kom fram að erlendu starfsfólki hefði fjölgað mjög á síðustu árum á Íslandi en heildaráhrif þeirrar fjölgunar væru jákvæð. Flest bendi til að fjölgun erlendra starfsmanna hafi aukið framleiðslugetu þjóðarbúsins. Dregið hafi úr launa- og verðbólguþrýstingi, fyrirtæki hafi getað brugðist við tímabundinni eftirspurnaraukningu án þess að þurfa að hækka laun og verð og því ætti aðlögun að nýju jafnvægi að verða auðveldari.

Góðir Íslendingar - Rannveig Sigurðardóttir

Seðlabankinn kannaði áhrif þess ef erlends starfsfólks hefði ekki notið við á íslenskum vinnumarkaði og beitti bankinn þjóðhagslíkani sínu til að skoða slíkt fráviksdæmi. Forsendur fráviksdæmisins eru íhaldssamar að hætti seðlabanka eins og Rannveig benti á, en gert var ráð fyrir allt að 2% færri erlendum starfsmönnum. Gert var ráð fyrir að fjárfestingar í stóriðju og fjárfesting hins opinbera hefðu verið óbreytt og önnur fjárfesting atvinnuveganna og íbúðafjárfesting hefði aðlagað sig minni mannafla. Framleiðni var haldið fastri. Helstu niðurstöður Seðlabankans ef erlends starfsfólks hefði ekki notið við eru eftirfarandi:

•         Verðbólga ½ til 1½ % meiri

•         Stýrivextir um 0,7 prósentum hærri 2006

•         Hagvöxtur 1½ til 2½ prósentu minni

•         Einkaneysla 3½ til 6 prósentum minni

•         Atvinnuvegafjárfesting 2-3 prósentum minni

•         Kaupmáttur ráðstöfunartekna 2-4½ prósentum minni

•         Auður heimilanna 2-5 prósentum minni

Rétt er að hafa í huga eins og Rannveig benti á að þessar tölur eru til viðmiðunar en hún sagði jafnframt að af þessu væri ljóst að fátt hefði verið betra í íslensku þjóðfélagi ef erlends starfsfólks hefði ekki notið við á íslenskum vinnumarkaði.

Þörf á yfirvegaðri umræðu 

Sólveig Jónasdóttir fjallaði um viðhorf Íslendinga til útlendinga á Íslandi og um umræðu um málefni þeirra. Sólveig sagði þörf á því að hún yrði á yfirvegaðri nótum en til þessa og stjórnmálamenn mættu láta af tilhneigingu sinni að oftúlka tölur og ýkja. Sólveig fjallaði um þær fjölmörgu hindranir sem útlendingar og erlent starfsfólk þurfa að kljást við á Íslandi og sagði tímabært að þjóðin gerði upp við sig hvort horft væri á útlendinga hér á landi sem erlent vinnuafl eða framtíðar ríkisborgara. Til þess að svo mætti verða þyrfti hins vegar að breyta bæði viðhorfum og áherslum, hjá almenningi, á vinnumarkaði og hjá ríkisvaldinu.

Góðir Íslendingar - Sólveig Jónasdóttir o.fl.

Beiting öryggisráðstafana EES samningsins fullkomlega óraunhæf

Ragnar Árnason fjallaði um hvort mögulegt væri að takmarka fjölda erlendra starfsmanna hér á landi með beitingu öryggisráðstafana EES samningsins. Ragnar benti á að þær yrðu að beinast gegn öllum 27 aðildarríkjum EES samningsins samtímis, þ.á m. Norðurlöndunum, en það eitt gerði notkun þessara ákvæða fullkomlega óraunhæfa. Sjá nánari umfjöllun um erindi Ragnars.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA var fundarstjóri og stýrði umræðum.

Glærur framsögumanna:

Rannveig Sigurðardóttir

Sólveig Jónasdóttir

Ragnar Árnason