Seðlabanka ber að lækka vexti

„Við teljum mjög mikilvægt að Seðlabankinn hækki ekki vexti á fimmtudag og að full ástæða sé til að hefja vaxtalækkunarferli í ljósi þess samdráttar í efnahagslífinu sem er framundan,” segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, í samtali við Fréttablaðið. Hannes segir ánægjulegt að hækkun vísitölunnar hafi reynst minni en gert var ráð fyrir í samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins í júní. „Verðbólgukúfurinn virðist því mun lægri en búist var við og vekur það vonir til þess að við náum verðbólgumarkmiðum mun hraðar en stefnt var að,” segir Hannes og bendir á að ein helstu markmið samkomulagsins um að hafa áhrif á verðbólguvæntingarnar hafi náðst og einkaneysla hafi dregist saman í kjölfarið. Einnig hafi það veruleg áhrif að dregið hafi úr hækkunum á fasteignamarkaði.