Sáttmáli um upprunamerkingar matvæla

Samtök atvinnulífsins, Bændasamtök Íslands og Neytendasamtökin hafa skrifað undir sáttmála um upprunamerkingar matvæla. Samstarfsaðilarnir hafa í tilefni af því hleypt af stokkunum átaksverkefni til að bæta upprunamerkingar og mun það standa út árið 2014.

Verkefnastjórn samstarfsaðilanna þriggja mun vinna að vitundarvakningu meðal matvælaframleiðenda og innflytjenda á matvælum og hvetja þá til að merkja upprunaland matvöru með skýrum hætti. Unnið verður að leiðbeinandi tillögum um merkingar og neytendur hvattir til að kynna sér uppruna matvæla.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins og Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, skrifuðu undir sáttmálann.

Sáttmáli samtakanna þriggja um upprunamerkingar á matvælum:

Bændasamtök Íslands, Neytendasamtökin og Samtök atvinnulífsins fagna þeirri umræðu sem uppi hefur verið um mikilvægi þess að neytendum sé ávallt ljóst hvert er upprunaland matvörunnar sem þeim stendur til boða, bæði í verslunum og veitingahúsum hérlendis.

Samtökin hvetja matvælaframleiðendur og innflytjendur að standa vel að merkingum á uppruna matvæla og hvetja neytendur til þess að láta sig þetta mikilvæga málefni varða og krefjast upprunamerkinga á öll matvæli.

Það er vilji samtakanna að markmið þeirra um upprunamerkingar matvæla nái fram að ganga og að allir leggist á eitt um að svo megi verða.

Sáttmáli um upprunamerkingar matvæla - pdf