Samtök ferðaþjónustunnar opna á náttúrupassa

Ferðaþjónustan er reiðubúin til viðræðna við stjórnvöld um útgáfu náttúrupassa til fjármögnunar framkvæmda við ferðamannastaði. Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar hvetur stjórnvöld til þess að gera sveitarfélögum kleift að vinna að skipulagsmálum með beinum framlögum úr ríkissjóði og að setja samgönguyfirvöld í forsvar fyrir göngustíga- og útsýnispallagerð á sama hátt og gert er við akvegi, reiðvegi og hjólastíga. Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar SAF sem fram fór í gær.

 Ályktunina má lesa hér að neðan í heild sinni:

"Ferðaþjónusta verður sífellt mikilvægari í þjóðarbúskap Íslendinga og hefur helmingi meira vægi þegar litið er til þjóðarframleiðslu en gerist í nágrannalöndum okkar auk þess sem hún skapar 19% alls gjaldeyris hér á landi. Erlendum ferðamönnum fjölgar hratt en tæplega 20% fleiri ferðamenn voru á Íslandi á síðasta ári miðað við fyrra ár.

Mikill vöxtur í komum erlendra ferðamanna kallar á endurskoðun innviða sem sumir hafa ekki haldið í við þennan vöxt. Vegakerfið er víða að niðurlotum komið, vegir að mörgum ferðamannastöðum fá lítið sem ekkert viðhald og náttúran sem er helsta aðdráttarafl Íslands líður fyrir skort á uppbyggingu á ferðamannastöðum.

-         Aðalfundur SAF skorar á stjórnvöld að gera sveitarfélögum landsins kleift að vinna að skipulagsmálum á jafnréttisgrundvelli með beinum fjárframlögum úr ríkissjóði

-          Aðalfundur SAF skorar á stjórnvöld að setja framkvæmdir við göngustíga og útsýnispalla á samgönguáætlun og setja þannig samgönguyfirvöld í forsvar fyrir göngustíga- og útsýnispallagerð á sama hátt og gert er við akvegi, reiðvegi og hjólastíga.

-        Aðalfundur SAF ályktar, í samræmi við þá hugmyndafræði að þeir borgi sem njóta, að samtökin eru tilbúin til viðræðna við stjórnvöld um útgáfu náttúrupassa til fjármögnunar á framkvæmdum við ferðamannastaði samhliða lækkun eða afnámi annarra sértækra skatta á ferðaþjónustu.

Ítarlega verður fjallað um aðalfund SAF 2013 á vef samtakanna eftir helgi.

Ræðu Árna Gunnarssonar, sem var endurkjörinn formaður SAF á fundinum má nálgast hér að neðan.

Ræða formanns SAF á aðalfundi 2013 (PDF)