Samtök atvinnulífsins leita að lögfræðingi til starfa á skrifstofu samtakanna

Starfið er krefjandi og fjölbreytt og felur í sér gerð og túlkun kjarasamninga, lögfræðilega ráðgjöf og þjónustu við aðildarfyrirtæki SA, einkum á sviði vinnuréttar, auk málflutnings f.h. samtakanna eða aðildarfyrirtækja þeirra. Í starfinu felst einnig gerð umsagna um þingmál, þátttaka í undirbúningi stefnumótunar samtakanna í fjölda mikilvægra málaflokka og aðkoma að alþjóðlegu samstarfi.

 Á vinnumarkaðssviði samtakanna starfa sex lögmenn. Leitað er að öflugum einstaklingi með embættis- eða masterspróf í lögfræði, nokkra starfsreynslu úr atvinnulífinu eða viðeigandi starfsreynslu á öðrum vettvangi og/eða viðbótarnám sem nýtist í starfi. Æskilegt er að viðkomandi hafi þekkingu á vinnurétti og lögmannsréttindi.

Upplýsingar veita Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA s. 821-0019 og Hrafnhildur Stefánsdóttir, yfirlögfræðingur SA, s. 821-0020.

Umsóknir berist á skrifstofu SA í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35 Reykjavík eða í tölvupósti á ragnar@sa.is.

Umsóknarfrestur er til 30. ágúst nk.

Skrifstofa SA er í Húsi atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins eru heildarsamtök íslensks atvinnulífs og málsvari atvinnurekenda í hagsmunamálum þeirra. Samtökin hafa innan sinna vébanda átta aðildarfélög sem starfa á grunni atvinnugreina. Aðild að SA eiga um  um 2.000 smá og stór fyrirtæki þar sem starfa um 55.000 starfsmenn eða um helmingur launamanna á almenna vinnumarkaðinum á Íslandi.


Hjá SA starfa 19 starfsmenn sem búa yfir margvíslegri sérfræðiþekkingu og sinna m.a. vinnumarkaðs-, efnahags-, skatta-, umhverfis-, samkeppnis- og menntamálum auk samstarfs við stjórnvöld og setu í margvíslegum stjórnum og nefndum, m.a. samningahópum vegna aðildarumsóknar Íslands að ESB. SA taka þátt í alþjóðlegu samstarfi atvinnurekenda en samtökin reka einnig skrifstofu í Brussel.

Nánari upplýsingar um Samtök atvinnulífsins á vef SA

Upplýsingar um átta aðildarfélög SA