Samþykkt Icesave er liður í endurreisninni

"Samtök atvinnulífsins álíta mikilvægt að Icesave-samkomulagið frá því í desember síðastliðnum verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn og telja hagsmunum atvinnulífsins og alls samfélagsins best borgið með því að ljúka málinu. Menn geta hér á landi verið ósammála alþjóðlegu matsfyrirtækjunum um neikvæð áhrif þess að Icesave-samningurinn verði felldur, á sama hátt og menn voru ósammála umfjöllun Danske Bank um íslenska bankakerfið fyrir nokkrum árum.

Það breytir því ekki að á þessi fyrirtæki er hlustað á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og áhrif mats þeirra eru mikil. Samþykkt Icesave-laganna styrkir forsendur kjarasamninganna um hagvöxt, framkvæmdir og fjárfestingar. Það er einn þáttur í endurreisn hagkerfisins og liður í því að opna atvinnulífinu aðgang að innlendu og erlendu lánsfé á viðráðanlegum kjörum og unnt verður að afnema gjaldeyrishöftin hraðar en ella."

Þetta sagði Vilmundur Jósefsson, formaður SA á aðalfundi samtakanna fimmtudaginn 7. apríl 2011.

Vilmundur Jósefsson, formaður SA.