Samstarf um aukna menntun á vinnumarkaði

Í dag var skrifað var undir samstarfsyfirlýsingu um að hækka menntunarstig íslensku þjóðarinnar og að auka virkni í atvinnulífi og samfélaginu í heild. Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, skrifaði undir yfirlýsinguna fyrir hönd samtakanna. Að henni standa auk SA mennta- og menningarmálaráðuneyti, Alþýðusamband Íslands (ASÍ), Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), fjármálaráðuneyti, og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Við sama tækifæri var skrifað undir nýjan þjónustusamning mennta- og menningarráðuneytisins við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins um framkvæmd framhaldsfræðslu um land allt. Markmiðið er að efla og auka tækifæri til mennta fyrir þá sem ekki hafa lokið framhaldsskólaprófi og bæta þannig stöðu sína á vinnumarkaði.

Framhaldsfræðslulög sem tóku gildi 1. október styrkja þann ramma sem búinn hefur verið til á undanförnum árum af aðilum vinnumarkaðarins í sameiningu um menntun í atvinnulífinu. Samstarfsyfirlýsingin sýnir að þeim sem að henni standa er full alvara með að vinna skipulega að því markmiði sem sett var í kjarasamningum 2008 að stefna að því að árið 2020 verði ekki fleiri en tíu af hundraði fólks á vinnumarkaði án viðurkenndrar starfs eða framhaldsskólamenntunar.

Í yfirlýsingunni er m.a. kveðið á um að tryggja skuli  að menntun og færni sem er metin innan framhaldsfræðslunnar verði viðurkennd innan framhaldsskólans og þeir sem þess óska geti  bætt við menntun sína án hindrana.