Samstarf um aðgerðir gegn langtímaatvinnuleysi

Samtök atvinnulífsins hafa í nánu samstarfi við aðildarsamtök sín undirbúið þátttöku í átakinu "Til vinnu" undanfarnar vikur. Átakið hefst í byrjun árs 2012 og munu aðgerðir í þágu langtímaatvinnulausra hafa forgang. Tryggja á allt að 1.500 atvinnuleitendum starfstengd úrræði, til viðbótar við þau úrræði sem í boði hafa verið. Síðdegis í dag skrifuðu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, BSRB og ríkisstjórnar Íslands undir yfirlýsingu um samstarf um átakið.

Skrifað undir samkomulagið í ráðhúsi Reykjavíkur

 
 Skrifað var undir samkomulagið í jólalegu umhverfi í ráðhúsi Reykjavíkur.

Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg munu beita sér fyrir því að sveitarfélögin skapi a.m.k. helming starfa eða starfstengdra úrræða innan verkefnisins en fyrirtæki á almennum vinnumarkaði munu skapa hinn helminginn. Gert verður samkomulag um samstarf Vinnumálastofnunar og VIRK- starfsendurhæfingarsjóðs um þjónustu VIRK við þá atvinnuleitendur sem hafa skerta starfsgetu. Samtök atvinnulífsins munu ráðast í sérstakt kynningarátak meðal fyrirtækja innan sinna vébanda til að ná  markmiðum um ný störf.

Í upplýsinga- og hvatningarbréfi sem sent verður til allra  fyrirtækja innan samtaka atvinnurekenda kemur fram að fjárhagslegir hvatar verði notaðir til að auðvelda ráðningar og þar segir með annars:

"Mikilvægt er fyrir samfélagið að bjótast út úr þeirri stöðu sem það er í og koma því fólki til vinnu sem vill og getur unnið. Athuganir gefa til kynna að þrátt fyrir djúpa kreppu undanfarinna þriggja ára sé þörf fyrir starfsfólk á mörgum sviðum, en vegna óvissu og mikils kostnaðar veigri fyrirtæki sér við að taka af skarið og ráða fólk. Fyrirtæki og stofnanir sýna samfélagslega ábyrgð í verki með því að ráða í ný störf fólk sem hefur leitað vinnu um langt skeið og vinna þannig gegn því mikla böli sem atvinnuleysið er"

Við undirbúning átaksins hafa Samtök atvinnulífsins reynt að tryggja að ráðningarferlið innan þess verði jafn lipurt og kostur er.

Yfirlýsinguna má lesa í heild hér að neðan:

Yfirlýsing
um aðgerðir gegn langtímaatvinnuleysi

Samráðshópur stjórnvalda, stjórnmálaflokkanna og aðila vinnumarkaðarins um menntun og vinnumarkaðsúrræði skilaði 31. mars 2011 tillögum sínum til ríkisstjórnarinnar um átak til þriggja ára. Tillögur hópsins báru yfirskriftina "Í NÁM - TIL VINNU".

Tillögurnar og fjármögnun þeirra voru til umfjöllunar í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí 2011 og varð samkomulag um það efni, sem fram kom í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011.

Meginefni aðgerðanna var tvíþætt, annars vegar að stuðla að auknum menntunartækifærum fyrir ungmenni og atvinnuleitendur og hins vegar að stórefla starfstengd úrræði fyrir atvinnuleitendur.

Með átakinu "NÁM ER VINNANDI VEGUR" sem ráðist var í fyrr á þessu ári tókst að tryggja öllu ungu fólki að 25 ára aldri sem þess óskaði námspláss í framhaldsskólum landsins auk þess sem um 1.000 atvinnuleitendur tóku þátt í námstengdum úrræðum.

Nú liggja fyrir tillögur um öflugar aðgerðir sem eiga að tryggja allt að 1.500 atvinnuleitendum starfstengd úrræði, til viðbótar við þau úrræði sem í boði hafa verið. Sérstök áhersla er lögð á hvata og úrræði fyrir langtímaatvinnulausa. Átaki með yfirskriftinni "TIL VINNU" verður hrint af stað þegar í byrjun árs 2012. Aðgerðir í þágu langtímaatvinnulausra munu hafa forgang í þessu átaki.

Liður í þessum aðgerðum er að gert verði samkomulag um samstarf Vinnumálastofnunar og VIRK - starfsendurhæfingarsjóðs um þjónustu VIRK við þá atvinnuleitendur sem hafa skerta starfsgetu. Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg munu beita sér fyrir því að sveitarfélögin skapi a.m.k. helming starfa eða starfstengdra úrræða innan verkefnisins en fyrirtæki á almennum vinnumarkaði munu skapa hinn helminginn. Í því skyni munu Samtök atvinnulífsins ráðast í sérstakt kynningarátak meðal fyrirtækja innan sinna vébanda til að ná þessu markmiði.

Það er sameiginlegur ásetningur þeirra aðila sem standa að þessari yfirlýsingu og unnið hafa að framangreindum verkefnum að fylgja þeim saman eftir af fullri einurð og festu þannig að ná megi þeim markmiðum sem hér er stefnt að.