Samskip tilnefnd til Menntaverðlauna atvinnulífsins 2014

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða veitt í fyrsta sinn mánudaginn 3. mars á Hilton Reykjavík Nordica til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Samskip er eitt fjögurra fyrirtækja sem eru tilnefnd sem Menntafyrirtæki ársins 2014. Á vef SA geturðu nú séð hvers vegna í stuttu sjónvarpsinnslagi.

Önnur fyrirtæki sem eru tilnefnd sem Menntafyrirtæki ársins 2014 eru Isavia, Landsbankinn og Rio Tinto Alcan á Íslandi.

Tilnefnd fyrirtæki leggja öll áherslu á mikilvægi menntunar og hafa skýra mennta-og fræðslustefnu sem er fylgt eftir. Við mat á tilnefningum voru gæði fræðslunnar metin og kannað hvort mennta- og fræðslustefnan hafi eflt menntun innan fyrirtækjanna og aukið samkeppnishæfni þeirra.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mun tilkynna um úrslit á Menntadegi atvinnulífsins en dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér.

Í dómnefnd sátu Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri IÐUNAR - fræðsluseturs, Steinn Logi Björnsson stjórnarformaður Bláfugls, Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

SA, SI, SAF, SVÞ, SF, SFF, og Samorka efna til menntadagsins sem stendur frá kl. 13-16.30 á Nordica á mánudaginn. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu en þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag.

Allir eru velkomnir og er ekkert þátttökugjald.

SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞIG 

Lógó - öll