Samrunar og samstarf fyrirtækja við sérstakar aðstæður

Þegar þrengir að í rekstri fyrirtækja eins og gerist nú í kjölfar fjármálakreppunnar er samruni og/eða samstarf fyrirtækja einn þeirra kosta sem litið er til. Samkvæmt upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu eru samkeppnislög sveigjanleg og geta nýst sem tæki til að leysa ýmis mál sem upp koma í aðstæðum eins og þeim sem nú ríkja. Við ákveðin skilyrði er unnt að heimila samruna sem áður var óhugsandi og sama á við um samstarf fyrirtækja. Samkeppniseftirlitið hefur þegar brugðist við með því að ýta til hliðar málum sem geta beðið. Mikilvægt er að huga að aðgangshindrunum á markaði og á þetta bæði við um stjórnvöld og eins þarf að skoða eðli markaða m.t.t. þessa.

Samtök atvinnulífsins hafa vegna þessa fengið eftirfarandi frá Samkeppniseftirlitinu en þeim sem óska frekari upplýsinga er bent á að snúa sér til stofnunarinnar:

"Fyrirtækjum sem nú huga að samstarfi eða samruna keppinauta vegna alvarlegra erfiðleika í rekstri er bent á eftirfarandi:

Samrunar fyrirtækja í erfiðleikum:

Í samkeppnisrétti er í undantekningartilvikum unnt að fallast á að samruna, sem leiðir til þess að markaðsráðandi staða myndist eða slík staða styrkist, megi réttlæta með því að slík breyting á markaðnum væri hvort sem er óhjákvæmileg, þar sem um væri að ræða sameiningu félags sem ella myndi hverfa af markaðnum vegna fjárhagserfiðleika. Slík niðurstaða er þó háð ströngum skilyrðum. Er meginsjónarmiðið það að slík undanþáguheimild geti aðeins átt við ef fyrir liggur að samkeppnislegri gerð markaðarins myndi hvort sem er hraka jafn mikið eða meira, þótt ekki yrði af samruna.

Í samkeppnisrétti er talið er að framangreindar aðstæður geti aðeins verið til staðar ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt: (1) Að fyrir liggi að félag það sem málsaðilar halda fram að stefni í þrot muni í nánustu framtíð hrökklast af markaðnum vegna fjárhagserfiðleika ef það yrði ekki tekið yfir af öðru félagi; (2) að möguleiki á annarri sölu nefnds félags, sem hefði minni röskun á samkeppni í för með sér, sé ekki til staðar; (3) að eignir þess félags sem stefnir í þrot myndu óhjákvæmilega hverfa af markaðnum og ekki verða grundvöllur nýs rekstrar, ef ekki kæmi til samrunans.

Undanþágur frá ólögmætu samráði:

Við þær aðstæður sem nú hafa skapast kann í ýmsum tilvikum að gera grundvöllur til þess að veita undanþágu frá banni við ólögmætu samráði en skilyrði 15. gr. samkeppnislaga fyrir því að Samkeppniseftirlitið geti veitt undanþágu frá bannákvæðum 10. og. 12. gr. laganna eru þau að "samningar, samþykktir, samstilltar aðgerðir eða ákvarðanir skv. 10. og 12. gr.:

  1. stuðli að bættri framleiðslu eða dreifingu á vöru eða þjónustu eða efli tæknilegar og efnahagslegar framfarir,
  2. veiti neytendum sanngjarna hlutdeild í ávinningi sem af þeim hlýst,
  3. leggi ekki höft á hlutaðeigandi fyrirtæki sem óþörf eru til að settum markmiðum verði náð og
  4. veiti fyrirtækjunum ekki færi á að koma í veg fyrir samkeppni að því er varðar verulegan hluta framleiðsluvaranna eða þjónustunnar sem um er að ræða."

Lausn á alvarlegum erfiðleikum fyrirtækja getur átt hér undir.

Aðgangshindranir:

Við þær aðstæður sem nú hafa skapast er mikilvægt að huga að því að ryðja úr vegi aðgangshindrunum inn á markaði, en með því er átt við hvers konar hindranir sem gera nýjum keppinaut erfitt að komast inn á viðkomandi markað.

Eðlilegt er að fyrirtæki sem eru að huga að samruna eða samstarfi við við önnur fyrirtæki vegna alvarlegra rekstrarerfiðleika séu reiðubúin í tengslum við afgreiðslu Samkeppniseftirlitsins að ræða leiðir til að draga úr aðgangshindrunum af þessu tagi, í því skyni að draga úr neikvæðum áhrifum á samkeppni."

Sjá nánar: www.samkeppni.is