Samkeppnishæf orku- og loftslagsstefna fyrir Evrópu

BUSINESSEUROPE, Evrópusamtök atvinnulífsins, hafa gefið út nýja stefnumörkun í orku- og loftslagsmálum til ársins 2030. Samtökin segja að tryggja verði fyrirtækjum í Evrópu samkeppnishæft orkuverð og öruggt framboð orku um leið og sett eru markmið í loftslagsmálum. BUSINESEUROPE telja rétt að setja strax ákveðið markmið um að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030.

Stefnumörkunina má nálgast hér að neðan (Competitive EU Energy and Climate Policy) en þar er að finna fjölmargar tillögur og ráðleggingar í loftslagsmálum til að tryggja samkeppnishæfni Evrópu og betri lífskjör fólks. Orkukostnaður í Evrópu hefur t.d. hækkað verulega á meðan hann hefur lækkað í Bandaríkjunum.

Samtökin hafa verulegar áhyggjur af því að erfitt verði að tryggja samkeppnishæft rekstrarumhverfi atvinnulífs í Evrópu á meðan fyrirtæki utan Evrópu búi við lægra orkuverð og minni kröfur um að dregið verði úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.


BUSINESSEUROPE vilja hvetja til fjárfestinga í loftslagsvænni tækni og betri orkunýtingu með því að setja markmið um takmörkun á útstreymi gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030. Þau lýsa eindregnum stuðningi við alþjóðlega viðleitni til að draga úr útstreymi en telja að ákveða ætti markmið fyrir Evrópu án tillits til þess hver niðurstaða kunni að verða um nýjan alþjóðlegan loftslagssamning.

Viðskiptakerfi Evrópu með útstreymisheimildir á að vera hornsteinn í stefnumörkun um orku- og loftslagsmál að mati BUSINESSEUROPE. Kerfið hvetur til fjárfestinga og tækniþróunar til að draga úr útstreymi. Á sama tíma verði að tryggja samkeppnishæfni orkufreks iðnaðar þannig að ekki myndist hvati til að fyrirtækin flytji annað þar sem kröfur eru minni.

Evrópusamtök atvinnulífsins telja rétt að draga smám saman úr markaðsstuðningi við endurnýjanlega orku. Mikilvægast sé að markaðurinn fái að ráða framboðinu. Eftir því sem tækni vindur fram og kostnaður við framleiðsluna minnki eigi að draga úr þessum stuðningi og leggja þess í stað áherslu á að styðja við nýja tækni. Mikilvægt sé auka stuðning við rannsóknir, þróun og nýsköpun á sviði orku og til að þróa tækni til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

Að mati BUSINESSEUROPE ætti að auka samræmingu orkustefnu aðildarríkja ESB. Mikilvægur þáttur í því sé að tryggja orkutengingar milli landa. Samtökin hvetja ESB til að kanna og nýta fjölbreyttar leiðir til að afla orku. Meðal annars að kanna hagkvæmar óvenjulegar orkulindir eins og gas í jarðlögum. Einnig að auka samstarf við þær þjóðir þar sem orkulindir er að finna.

SA og SI eiga aðild að BUSINESSEUROPE ásamt leiðandi atvinnuvegasamtökum í 35 löndum

Stefnumörkun BUSINESSEUROPE:

COMPETITIVE EU ENERGY AND CLIMATE POLICY. BUSINESSEUROPE RECOMMENDATIONS FOR A 2030 FRAMEWORK FOR ENERGY AND CLIMATE POLICIES (PDF).

Smelltu til að sækja!