Samkeppni mikilvæg í litlu hagkerfi

"Við höfum tekið miklum framförum á síðustu tuttugu árum. Við höfum séð aukna samkeppni í íslenska hagkerfinu og höfum við einnig tekið eftir að samkeppni virkar jafn vel í litlu hagkerfi, eins og því íslenska, og stórum hagkerfum. Þetta sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins,m.a. í erindi á alþjóðlegri ráðstefnu Samkeppniseftirlitsins um samkeppnismál. Þorsteinn segir brýnt að auka samkeppni í mennta- heilbrigðis- og landbúnaðarkerfinu, að auka frjáls viðskipti og opna markaði með sem minnstum aðgangshindrunum. Samkeppnisreglur gegni mikilvægu hlutverki í samfélaginu.

Þorsteinn leggur til að Samkeppniseftirlitið fái leiðbeinandi hlutverk í meira mæli en nú er, en mörg fyrirtæki hafa kvartað yfir því að erfitt sé að fá leiðbeiningar í samkeppnismálum.

Ítarlega er fjallað um ráðstefnu Samkeppniseftirlitsins í Viðskiptablaði Morgunblaðsins fimmtudaginn 3. október, en þar segir m.a um erindi Þorsteins:

"Við höfum einnig áhyggjur af rétti fyrirtækja sem liggja undir rannsókn. Við höfum stundum séð að rannsóknir taka langan tíma, en ferlið þarf að vera eins hratt og kostur er á. Það er þung byrði að bera að vera sakaður um að brjóta samkeppnislög." Mikilvægt sé að hraða ferlinu án þess þó að grafa undan rannsóknum.

"Fyrirtæki virðast heldur ekki hafa það á hreinu hvað þau eru sökuð um. Það á ekki bara við um samkeppnislögin. Við höfum séð dæmi þess að þegar kemur að gjaldeyrishöftunum, að þá viti fyrirtæki ekki nákvæmlega hvaða reglur þau eru sökuð um að hafa brotið. Hægt er að bæta úr því."

Langt á eftir nágrannaríkjum

Næst vék hann máli sínu að samkeppni innan opinbera geirans. "Þegar ég lít til baka og sé þann árangur sem við höfum náð á sviði samkeppnismála - sér í lagi í einkageiranum - þá verð ég oft undrandi á því að þeir sem komið hafa samkeppnislögunum á virðast ekki hafa mikla trú á þeim þegar kemur að eigin aðgerðum." Sagði hann stjórnvöld hafa litla trú á áhrifum samkeppni á skilvirkni og þjónustu í til dæmis heilbrigðis-, mennta- og landbúnaðarkerfinu.

"Það eru fjölmörg tækifæri til staðar á sviði heilbrigðisþjónustu. Við eigum í miklum erfiðleikum með að fjármagna kerfið og sjáum að það er óskilvirkt í samanburði við nágrannaríkin. Ég trúi því að aukin samkeppni muni ekki aðeins hjálpa við að draga úr kostnaði, fækka fólki á biðlistum og tryggja betri þjónustu, heldur muni hún hjálpa okkur að halda hæfu heilbrigðisstarfsfólki."

Þorsteinn tók sem dæmi að um 20 til 25% af heimsóknum sjúklinga til lækna væru á einkastofur á Norðurlöndunum, en að þetta hlutfall væri í kringum 5% á Íslandi. "Við erum langt á eftir nágrannaríkjum okkar sem og þeim ríkjum sem við berum okkur saman við. Ég tel einnig að óþarfi sé að óttast að það dragi úr öryggi og þjónustu ef við ákveðum að taka þessi skref.

Annað mál er menntakerfið. Þar ríkir sami óttinn hjá mörgum, að einkareknir skólar munu til dæmis ekki veita jafn góða þjónustu og opinberir skólar og svo framvegis. Staðreyndin er hins vegar önnur. Við eigum góða einkaskóla á bæði háskólastigi og á öðrum stigum skólakerfisins. Tel ég að við ættum að taka frekari skref í þá átt."

Hann gagnrýndi einnig framgöngu stjórnvalda þegar kemur að farþegaflutningum. Eins og alkunna er hefur einu fyrirtæki verið veitt einkaleyfi á að flytja farþega til og frá Leifsstöð. Þannig hefur frelsi í flutningi flugfarþega með rútum um Reykjanesbraut í raun verið afnumið. "Þetta er áhyggjuefni. Stjórnvöld eiga ekki að koma inn á markaði með þessum hætti og draga svona úr frjálsri samkeppni. Það færir okkur ekki í rétta átt."

Sjá nánar í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 3. október 2013

Umfjöllun um ráðstefnuna má einnig nálgast á vef Samkeppniseftirlitsins