Samkeppni eykur gæði í skólastarfi

Sænskir einkaskólar - viðurkenndir af menntayfirvöldum - hafa síðan 1992 fengið sömu greiðslur með hverjum nemanda frá hinu opinbera og þeir skólar fá sem eru í opinberum rekstri. Um 5% nemenda 18 ára og yngri sækja einkaskóla. Á liðnu ári gerðu sænsk menntayfirvöld samanburð á gæðum náms í skólum, miðað við meðaleinkunn nemenda í níunda bekk grunnskóla. Niðurstöðurnar sýna að námsárangur nemenda er betri í einkaskólunum en í skólum í opinberum rekstri, einnig þegar tekið hefur verið tillit til ýmissa félagslegra þátta og efnahags. Samanburðurinn leiðir jafnframt í ljós að því hærra sem hlutfall einkaskólanna er í hverju sveitarfélagi, því betri er námsárangur nemenda í skólum í opinberum rekstri innan sveitarfélagsins. Samkeppnin virðist því hafa jákvæð áhrif á gæði skólastarfsins, hvort sem horft er til einkaskólanna eða til skóla í opinberum rekstri.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í umfjöllun um Svíþjóð í ritinu In Search of Best Nordic Practice, sem gefið er út af samtökum atvinnulífsins á Norðurlöndunum fimm.