Samið um frestun launahækkana

Samkomulag náðist síðdegis milli SA og ASÍ um frestun fyrirhugaðra launahækkana 1. mars en ákveðið var að fresta ákvörðun um endurskoðun kjarasamninga um allt að fjóra mánuði. Samningsaðilar telja að þessi frestun sé mikilvægt framlag til stöðugleika í efnahagslífinu. Þannig geti skapast aðstæður til þess að hratt dragi úr verðbólgu og vextir geti lækkað. Í sameiginlegum áherslum SA og ASÍ segir að á næstu dögum og vikum þurfi að grípa til margvíslegra aðgerða til þess að verja hag heimilanna og fjölga störfum.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir að SA séu sátt við að náðst hafi að fresta endurskoðun samninganna fram í júní. Eina hækkunin sem verði nú sé hækkun á lágmarkstekjutryggingu fyrir dagvinnu, sem verði 157 þúsund krónur á mánuði. "Það var nauðsynlegt til þess að skapa ótvíræðan hvata fyrir fólk til að vinna. Í núverandi atvinnuástandi er alltaf hætta á því að ákveðinn hópur vilji fremur þiggja atvinnuleysisbætur en vinna þótt langflestir kjósi að vinna."

Á vinnumarkaðsvef SA segir m.a. um lágmarkstekjutryggingu: " Í kjarasamningum verkafólks og verslunarmanna er ákvæði um lágmarkstekjur á mánuði fyrir fullt starf. Hjá verkafólki telst fullt starf vera 173,33 stundir á mánuði (40 stundir á viku). Hjá verslunarfólki telst fullt starf vera 171,17 stundir á mánuði (39,5 stund á viku).

Hafa verður í huga að hér er ekki um að ræða lágmarkstaxta kjarasamninga. Þeir standa sjálfstætt en með kjarasamningnum er tryggt að starfsmaður hafi tilteknar lágmarkstekjur að teknu tilliti til álags- og aukagreiðslna. Reglan nær einungis til starfsmanna sem eru 18 ára og eldri og starfað hafa a.m.k. fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki."

Í yfirlýsingu SA og ASÍ er kveðið á um eftirfarandi verkefni sem ráðast þurfi í:

 • 1. Tryggja að vextir lækki hratt

 • 2. Stíga veigamikil skref til að losa um gjaldeyrishömlur

 • 3. Ljúka endurskipulagningu bankanna þannig að eðlileg bankastarfsemi komist á.

 • 4. Stuðla að aukinni atvinnu með því að:

  a. Forgangsraða opinberum framkvæmdum þannig að frekar verði ráðist í mannaflsfrekar framkvæmdir. Forgangsröðunin verði unnin í samráði við aðila vinnumarkaðarins.

  b. Hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingastað vegna nýbygginga og viðhalds í 100% og láta ákvæðið einnig ná til sumarhúsa og fasteigna í eigu sveitarfélaga.

  c. Heimildir Íbúðalánasjóðs til lánveitinga vegna til viðhaldsverkefna verði rýmkaðar þannig að þær nái til leiguhúsnæðis í eigu félaga, félagasamtaka og sveitarfélaga.

  d. Taka upp skattaívilnanir til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar.

 • 5. Skapa aðstæður fyrir stofnun fjárfestingarsjóðs atvinnulífsins m.a. með því að ljúka uppgjöri milli lífeyrissjóða og skilanefnda bankanna.

 • 6. Stuðla að fjárfestingum erlendra aðila hérlendis sem og auknum fjárfestingum íslenskra alþjóðafyrirtækja

 • 7. Vinna að forgangsröðun í opinberum fjármálum fyrir næstu ár. 

Yfirlýsing ASÍ og SA


Samkomulag ASÍ og SA um breytingar á samningum - 25. 2. 2009


Niðurstaða forsendunefndar ASÍ og SA 25.2.2009