Samið um 0,5% launahækkun í Noregi

Norsku Samtök iðnaðarins og stærsta verkalýðsfélag Noregs á almennum vinnumarkaði (Fellesforbundet) undirrituðu kjarasamning í lok síðustu viku um 0,5% launahækkun á árinu og þar með var yfirvofandi verkföllum afstýrt. Í Noregi er samkomulag milli aðila að framangreind samtök slái tóninn fyrir aðra samningsgerð (Frontfagsmodellen) og önnur samtök geri síðan frá samningum á sömu nótum. Á síðustu dögum hafa verið gerðir samskonar samningar á nokkrum öðrum sviðum en samtals verða endurnýjaðir 150 samningar á almennum vinnumarkaði innan fárra vikna.

Í Noregi er jafnan samið um ramma fyrir launabreytingar sem skilgreindur er sem launahækkun milli ársmeðaltala. Samkomulagið felur í sér 1,7% ramma fyrir launahækkun milli áranna 2019 og 2020, en þar af voru 1,2% komin fram í ársbyrjun 2020. Samkvæmt viðræðuáætlun átti að ganga frá samningum í mars sl. en þeim var frestað fram vegna kórónufarsóttarinnar.

Samningarnir eru hófstilltir og markast að krefjandi aðstæðum í norsku efnahagslífi og lítilli verðbólgu sem áætluð er 1,4% á árinu. Erlend eftirspurn eftir norskum iðnaðarvörum hefur hríðfallið og þar með eftirspurn útflutningsfyrirtækjanna eftir vöru og þjónustu innanlands. Þá er launaþróun meðal samkeppnisríkja á niðurleið. Meginmarkmið samningsaðila er að varðveita og skapa ný störf og að allir samningar sem framundan séu á vinnumarkaði verði innan kostnaðarrammans.