Vinnumarkaður - 

15. desember 2017

Samhengi hlutanna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Samhengi hlutanna

Boðaðar verkfallsaðgerðir Flugvirkjafélagsins, vegna flugvirkja hjá Icelandair, munu hafa áhrif á um 10.000 farþega hvern dag sem verkfall varir. Flugvirkjum hjá Icelandair stendur til boða launahækkun í samræmi við það sem aðrir í samfélaginu fá. Með verkfallshótun á viðkvæmasta tíma er stéttarfélag þeirra að reyna að þvinga fram kauphækkanir langt umfram það. Aðilar vinnumarkaðar hafa dregið línu í sandinn og frá henni verður ekki kvikað. Ástæðan er einföld: Ef á kröfurnar yrði fallist myndu niðurstöður slíks samnings hellast yfir allan vinnumarkaðinn og kippa stoðunum undan efnahagslegum stöðugleika.

Boðaðar verkfallsaðgerðir Flugvirkjafélagsins, vegna flugvirkja hjá Icelandair, munu hafa áhrif á um 10.000 farþega hvern dag sem verkfall varir. Flugvirkjum hjá Icelandair stendur til boða launahækkun í samræmi við það sem aðrir í samfélaginu fá. Með verkfallshótun á viðkvæmasta tíma er stéttarfélag þeirra að reyna að þvinga fram kauphækkanir langt umfram það. Aðilar vinnumarkaðar hafa dregið línu í sandinn og frá henni verður ekki kvikað. Ástæðan er einföld: Ef á kröfurnar yrði fallist myndu niðurstöður slíks samnings hellast yfir allan vinnumarkaðinn og kippa stoðunum undan efnahagslegum stöðugleika.

Verkefni næstu missera er að festa í sessi dæmalausan lífskjarabata með skynsamlegum kjarasamningum.

Stöðugleiki í hættu
Kjarasamningar næstu missera munu  hafa afgerandi áhrif á efnahagslega umgjörð atvinnulífs og heimila. Niðurstöður þeirra munu ákvarða hvort hér á landi verður stöðugleiki eða ekki. Það er ábyrgðarhlutur sem atvinnurekendur, hið opinbera og viðsemjendur þeirra standa frammi fyrir. Sú ábyrgð nær einnig til Flugvirkjafélagsins.

Launahækkanir umfram getu efnahagslífsins valda verðbólgu. Frekari skerðing en þegar er orðin á samkeppnisstöðu atvinnulífsins, vegna mikillar hækkunar launakostnaðar undanfarin ár og styrkingar krónunnar, er ekki sjálfbær, stuðlar að viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun. Það gerðist síðast á uppgangsárunum 2004-2007 og hefur ítrekað gerst á árum áður. Ójafnvægið leiðréttist ávallt með gengisfalli krónunnar, verðbólgu og rýrnun lífskjara. Þessi leið er fullreynd og finna má mýmörg dæmi um hana í hagsögu Íslands.

Ekkert verður til úr engu
Undirstaða lífskjara fólks er góð samkeppnisstaða útflutningsgreina og uppbygging kaupmáttar launa  þar sem saman fer jafnvægi innanlands og í viðskiptum við útlönd. Þannig má forðast efnahagsskelli fortíðar.

Verkefni næstu missera er að festa í sessi dæmalausan lífskjarabata með skynsamlegum kjarasamningum og kjaraviðræður við Flugvirkjafélagið er prófsteinn á hvort hægt sé að koma böndum á úr sér gengna nálgun á vinnumarkaði. Aðferðafræði fortíðar er fullreynd. Frá árinu 1994 hafa árlegar launahækkanir á Íslandi verið 6,5% að meðaltali en á sama tíma hefur verðlag hækkað um 5% á ári. Kaupmáttaraukningin hefur verið 1,6% á ári að meðaltali. Á Norðurlöndum hafa laun hækkað minna en vegna lítillar verðbólgu hefur kaupmáttaraukningin verið svipuð og á Íslandi. Frá undirritun kjarasamninga á almennum markaði fyrir 30 mánuðum hefur kaupmáttur aukist um ríflega 15%. Kaupmáttaraukning heils áratugar var tekin út á rúmum tveimur árum.

Mikið í húfi
Mikilvægasta verkefni komandi kjarasamninga er að verja þessa kaupmáttaraukningu. Kröfur og verkfallsaðgerðir Flugvirkjafélagsins eru ógnun við efnahagslegan stöðugleika. Nálgun félagsins, ofurkröfur og verkfallsaðgerðir, er fortíðardraugur. Hún er dæmd til að mistakast eins og hagsaga Íslands ber vitni um. Samtök atvinnulífsins vilja hvorki né geta samið um innstæðulausar launahækkanir fyrir flugvirkja hjá Icelandair. Líta verður á kjaradeiluna og áhrif hennar í víðu samhengi hlutanna.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. desember 2017

Samtök atvinnulífsins