Samfélagsábyrgð og sóknarfæri í atvinnulífinu. Morgunverðarfundur og námskeið 25. október

Samtök atvinnulífsins, UNDP í Kaupmannahöfn, Íslandsstofa og Þekkingarsetur um samfélagsábyrgð fyrirtækja efna til morgunverðarfundar og námskeiðs um samfélagsábyrgð þriðjudaginn 25. október á Grand Hótel Reykjavík. Leitað verður svara við því hvernig samfélagsábyrgð í rekstri geti opnað ný viðskiptatækifæri og aukið veltu fyrirtækja.

Stjórnendur fyrirtækja eru sérstaklega hvattir til að mæta en fundurinn og námskeiðið er öllum opið. Fjöldi þátttakanda er þó takmarkaður en áhugasamir geta enn bæst í hópinn. Skráningu lýkur á mánudag. Enginn aðgangseyrir.

Á fundinum mun Helle Johansen, sérfræðingur á skrifstofu þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn (UNDP)  fjalla um samfélagsábyrgð og atvinnulífið og hvaða hag fyrirtæki hafa af því að setja hana á oddinn, sérstaklega á tímum niðursveiflu í efnahagslífinu þegar það reynir á stjórnendur fyrirtækja að skila jákvæðri afkomu. Einnig mun hún fjalla um þær skuldbindingar sem fyrirtæki gangast undir með því að skrifa undir Global Compact - sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð.

UNDP í Kaupmannahöfn hefur m.a. það  hlutverk að kynna fyrirtækjum á Norðurlöndunum Global Compact sem 8.700 fyrirtæki um allan heim hafa skrifað undir. Fyrirtækin eru af öllum stærðum og gerðum en um er að ræða stærsta og öflugasta framtak fyrirtækja í heiminum sem vilja setja sjálfbærni og samfélagsábyrgð (e. Corporate Social Responsibility / CSR) á oddinn. Alls hafa 242 fyrirtæki í Danmörku skrifað undir Global Compact og mun Helle ræða gagnlega hluti  og veita góð ráð en hún hefur veitt dönskum fyrirtækjum ráðgjöf í þessum efnum.

Jacob Stokkebye, eigandi danska sjávarútvegsfyrirtækisins Butler´s Choice, mun fjalla um hvernig samfélagsábyrgð er samofin viðskiptaáætlun þeirra og hvernig stefna fyrirtækisins hefur opnað þeim leið inn í hillur stórmarkaða sem vilja eingöngu bjóða neytendum upp á sjávarafurðir sem eru unnar og veiddar með sjálfbærum hætti.  Butler´s Choice er aðili að Global Compact .

Þá mun Anna Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri tæknisviðs Símans fjalla um sýn fyrirtækisins á samfélagsábyrgð fyrirtækja.  Anna er einnig stjórnarformaður nýs Þekkingaseturs um samfélagsábyrgð fyrirtækja sem starfrækt verður í nánu samstarfi við háskólasamfélagið en Anna mun segja frá markmiðum með stofnun setursins og helstu áherslum í starfi þess auk þess að greina frá stofnaðilum þess.

Morgunverðarfundurinn hefst kl. 8.30 og verður lokið kl. 10. Fundurinn fer fram á íslensku og ensku.

Í kjölfarið fer fram námskeið þar sem Helle og Jacob kafa dýpra í efnið en það hefst kl. 10.15 og stendur til 12.00

Helle mun fjalla um praktíska hluti sem snúa að því hvað stjórendum beri að gera eftir að hafa skrifað undir Global Compact en Jacob mun m.a. fjalla um reynslu fyrirtækisins af Global Compact og ISO 14001 og SA 8000 stöðlunum. Námskeiðið fer fram á ensku.

SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞIG

Fundurinn fer fram á Grand Hótel Reykjavík í salnum Háteig (A) á 4. hæð.

SA eru tengiliður á Íslandi við Global Compact - sáttmála S.Þ. um samfélagsábyrgð.

Tengt efni:

Ban Ki-moon hvetur fyrirtæki til að skrifa undir Global Compact

Ákall Ban Ki-moon til fyrirtækja - myndskeið

Viðmið Global Compact

Vefur Global Compact

Vefur Global Compact aðila á Norðurlöndunum