Sameinum kraftana til nýrrar sóknar - 24. janúar 2012
Iceland Geothermal í samvinnu við Rannís og Nýsköpunarmiðstöð
Íslands standa fyrir áhugaverðu málþingi 24. janúar 2012 um klasa
og klasastjórnun. Yfirskrift þingsins er "Sameinum kraftana til
nýrrar sóknar" og þar verður fjallað um hvernig hægt er að beita
klasastjórnun til að bæta samkeppnishæfni atvinnugreina á Íslandi.
Samtök atvinnulífsins eru meðal stofnaðila að Iceland Geothermal -
íslenska jarðvarmaklasans.
Aðalfyrirlesari málþingsins er dr. Gerd Meier zu Köcker,
aðstoðarforstjóri þýsku nýsköpunarmiðstöðvarinnar í Berlín og einn
virtasti sérfræðingur Evrópu á sviði klasastjórnunar og
frumkvöðlafræða. Inntak klasastefnu er að sameina kraftana og leiða
saman ólíka aðila, sem starfa innan sömu greinar.
Meginmarkmið málsþingsins er að fara yfir kosti klasastjórnunar,
skoða hvað ber að hafa að leiðarljósi við innleiðingu
klasasamstarfs og hvernig þessi aðferðafræði bætir samkeppnishæfni
Íslands.
Málþingið hefst klukkan 8.30 á Hilton Reykjavík Nordica með ávarpi
dr. Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra. Þá mun dr. Meier
flytja erindið ,,Trends in Cluster Polidy and Cluster Development"
og þeir dr. Runólfur Smári Steinþórsson prófessor við HÍ og Hákon
Gunnarsson framkvæmdastjóri Gekon fjalla um þróun klasa á Íslandi
og hvers vegna klasar eru mikilvægir.
Þá verður fjallað um klasa á Íslandi, þróun þeirra og
framtíðarmöguleika. Þar taka til máls Þór Sigfússon
framkvæmdastjóri íslenska sjávarklasans, dr. Björn Zoega forstjóri
Landspítala Háskólasjúkrahúss, Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa
lónsins og Þóra M. Þorgeirsdóttir í Gekon.
Að erindum loknum taka við pallborðsumræður undir stjórn Kjartans
Eiríkssonar framkvæmdastjóra KADECO. Þátttakendur í pallborði eru
dr. Gerd Meier zu Köcker, Hákon Gunnarsson, Helga Jónsdóttir
ráðuneytisstjóri og Stefán Pétursson fjármálastjóri í Arion banka.
Að lokum mun Orri Hauksson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins
annast samantekt. Fundarstjóri á málþinginu er Elvar Knútur
Valsson, sérfræðingur í iðnaðarráðuneytinu.
Nánari upplýsingar um málþingið veitir Hákon Gunnarsson
framkvæmdastjóri Gekon í hakon@gekon.is
Skráning er hér