Sala á bjór aðallega umsýsla með peninga hins opinbera

Rætt er við Árna Stefánsson, forstjóra Vífilfells, í nýlegu tímariti Samtaka atvinnulífsins. Þar bendir hann á að áfengis- og vörugjald á bjór nemi um 70% af söluverði frá fyrirtækinu þannig að þetta sé fyrst og fremst umsýsla með peninga hins opinbera. Hann segir að frá árinu 2009 hafi álögur ríkisins á vörur Vífilfells aukist verulega og það sé miklum takmörkunum háð hvernig megi kynna íslenskan bjór sem hafi leitt til aukningar á sölu erlends bjórs.

Árni segir að starfsumhverfið gæti verið miklu betra og jákvæðara fyrir fyrirtæki sem vilji efla reksturinn, skapa meiri verðmæti og búa til fleiri störf. Hann gagnrýnir jafnframt þingmenn fyrir að hækka gjöld á atvinnulífið eða breyta leikreglum með litlum eða nánast engum fyrirvara.

Árni Stefánsson, forstjóri Vífilfells.

Mynd: BIG

"Það er ámælisvert hversu lítinn tíma fyrirtæki hafa til að bregðast við nýjum eða hækkuðum ríkisálögum þar sem að skattafrumvörp koma ekki fram fyrr en í nóvember og eru afgreidd um miðjan desember. Fyrirtækin eru þá fyrir allnokkru síðan búin að vinna fjárhagsáætlanir fyrir næsta ár og marka stefnu um verðlagningu og fleiri þætti. Óvissan sem fylgir þessu er mjög skaðleg."

Tímarit SA má lesa á vef SA og hér að neðan, en þar ræðir Árni m.a. um uppbyggingu og áherslur fyrirtækisins. Öll starfsemi þess byggir á hreinu vatni, gæðum, öflugri vöruþróun, öryggi og virðingu fyrir umhverfinu.

"Það má ekkert út af bera við framleiðslu fyrirtækisins og ásýnd þess er mjög mikilvæg. Vegna þessa hefur fyrirtækið innleitt víðtæka staðla á verkferlum og er þeirri innleiðingu ekki að fullu lokið. Innleiddir hafa verið allir alþjóðlegir staðlar sem eiga við um starfsemina. Í notkun er gæðastaðallinn ISO 9001, umhverfisstaðallinn ISO 14001, matvælastaðallinn ISO 22000 og verið er að innleiða vinnuöryggisstaðalinn OHSAS 18001.

Fullkomnasta vatnshreinsun á Íslandi

Á síðasta ári var byggð á vinnslusvæði Vífilfells vatnshreinsistöð sem hreinsar allt affallsvatn sem frá verksmiðjunni kemur. Hreinsuð eru 95% af öllum óhreinindum í vatninu og krafan er sú að það vatn sem fyrirtækið skilar í fráveitukerfið sé svo hreint að gullfiskar geti lifað í því. Þetta er eina vatnshreinsistöð sinnar tegundar á landinu. Hreinsunin er mun meiri en sú sem fer fram í skolphreinsistöðvum sveitarfélaganna. Árni lýsir ferlinu við hreinsunina: "Ferlið byggir á því að bakteríur brjóta niður lífræn efni í vatninu og mynda metangas. Það er svo nýtt til að hita vatnið sem kemur inn í stöðina í um 30°C sem er kjörhiti fyrir bakteríurnar. Fjárfestingin í þessum búnaði er um 450 milljónir króna."

Allt byggir á hreinu vatni

Vatnið sem Vífilfell notar við framleiðsluna kemur frá Gvendarbrunnum og er mjög hreint. "Þetta er toppvatn en við viljum að vatnsverndarsvæðinu sé alveg lokað vegna þess að það má ekkert út af bregða. Fyrir nokkrum árum höfðum við t.d. áhyggjur af losun úrgangs á Hólmsheiði en að okkar mati ætti ekki að leyfa neina umferð um svæðið," segir Árni. "Þarna fara hagsmunir fyrirtækisins og borgarbúa allra saman - það verður að tryggja gæði vatnsins okkar."

Sjá nánar í tímariti SA. Viðtalið við Árna er á bls. 64-65. Þar ræðir hann að auki um aukna áherslu Vífilfellss á heilsudrykki, markaðsmál og samskiptin við spænska móðurfyrirtækið Cobega sem hóf saltfiskinnflutning til Spánar frá Íslandi upp úr 1850.

Smelltu til að lesa!