SA vilja stuðla að upplýstri umræðu

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir í viðtali við Fréttablaðið að SA vilji fyrst og fremst stuðla að upplýstri umræðu um stækkun álversins í Straumsvík og að málið sé rætt út frá staðreyndum sem lagðar séu á borðið. Talsmaður Sólar í Straumi, Kristín Pétursdóttir, gagnrýnir SA fyrir aðkomu að umræðu um stækkun álversins en Hannes bendir á að kosning Hafnfirðinga um stækkun álversins sé einstök. Að öllum líkindum sé þetta í fyrsta skipti í sögunni sem íbúar í sveitarfélagi greiði atkvæði um stækkun fyrirtækis. Þar með sé fyrirtækinu komið í aðstæður sem það hafi ekki lent í áður, þ.e. kosningabaráttu um framtíðaráform sín sem það geti ekki annað en tekið þátt í.

Stækkun skapar störf og verðmæti

Í samtali við Fréttablaðið segir Hannes: "Við höfum lagt mat á afleidd áhrif þess ef af stækkun álversins verður og það er okkar mat að hún leiði af sér fjölda nýrra starfa og skapi þar með mikilvæg verðmæti. Við höfum einbeitt okkur að því að afla upplýsinga og leggja þær á borðið svo hægt sé að ræða um þessi málefni með skynsömum hætti. Þetta virðist vera mikið tilfinningamál fyrir suma en ég tel að það sé skynsamlegast að reyna að stuðla að upplýstri umræðu um þessi mál og það er það sem við höfum verið að gera, bæði með faglegri upplýsingaöflun og umræðufundum."
 

Einstakar kosningar

Um fyrirhugaðar kosningar um stækkun álversins í Straumsvík segir Hannes ennfremur: "Ég hygg að þetta sé í fyrsta skipti í sögunni sem íbúar í sveitarfélagi greiða atkvæði um stækkun fyrirtækis. Með þessum hætti er verið að koma fyrirtæki í aðstæður sem það hefur ekki lent í áður, það er að fara út í kosningabaráttu um framtíðaráform sín. Fyrirtækið getur ekkert annað gert en að taka þátt í baráttunni og ég efast um að þessi kosning verði til þess að sætta ólík sjónarmið í þessu máli, hver sem niðurstaðan verður."