SA undirbúa kjaraviðræður

Kjarasamningar landasambanda ASÍ og fjölmargir aðrir kjarasamningar falla úr gildi um næstu áramót. Þar á meðal eru kjarasamningar verkafólks, iðnaðarmanna, verslunar- og skrifstofufólks, flugliða og farmanna. Ætla má að yfir 70 þúsund launamenn séu félagar í hlutaðeigandi stéttarfélögum. Margir samningar gilda fram á haustið 2008, m.a. samningar stóriðjufyrirtækja, orku- og veitufyrirtækja, fjármálafyrirtækja og sérsamningar einstakra fyrirtækja.

Framkvæmdastjórn SA hefur umsjón með gerð allra kjarasamninga fyrir hönd samtakanna, á grundvelli þeirrar stefnu með stjórn samtakanna markar. SA leitast við að tryggja þátttöku þeirra aðildarfyrirtækja sem mesta hagsmuni eiga af hlutaðeigandi samningaviðræðum. Stjórnendur margra fyrirtækja koma beint að kjaraviðræðum vegna aðildar fyrirtækjanna að samningum en SA leita einnig til fjölda fyrirtækja um upplýsingar, tillögur og liðsinni. Þessi fyrirtæki eru í samninganefndum og bakhópum SA vegna einstakra kjaraviðræna. Öllum aðildarfyrirtækjum SA gefst kostur á að fylgjast með gangi viðræðna í gegn um skrifstofu og heimasíðu SA.

Þegar í næstu viku verður aðildarfyrirtækjum SA gefinn kostur á að skrá sig á Vinnumarkaðsvef SA og óska eftir beinni aðkomu að kjaraviðræðum. Í því felst þátttaka í bakhópum SA og eftir atvikum í samninganefndum. Þar gefst aðildarfyrirtækjum einnig kostur á að koma á framfæri tillögum til samningamanna SA um breytingar á kjarasamningum.