SA-TV: Ný vél á leið í Reykjanesvirkjun

Möguleikar til orkunýtingar á Reykjanesinu eru ótrúlega miklir. Þetta segir Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri HS Orku, en SA-TV ræddi við hann um orkumál í Reykjanesvirkjun. Ný vél í virkjunina er á leiðinni til landsins og verður hún komin fyrir lok maí. Albert segir orkuvinnslu klárlega mikilvægan lið í endurreisn landsins en gangi t.a.m. áform um djúpboranir eftir þúsundfaldast sá orkupottur sem Íslendingar hafa aðgang að. Vonir standa til að með djúpborun niður á 4-5 þúsund metra dýpi sé hægt að vinna mikla orku án þess að hafa mikil áhrif á umhverfið.

Það er margt spennandi að gerast í orkumálum Íslendinga og Albert nefnir t.a.m. nýtingu á kolsýru sem getur nýst í gróðurhúsaiðnaði, til þörungaræktar og til framleiðslu á metanóli eins og Carbon Recycling er að byrja á í Svartsengi. Þar verður 10% kolsýrunnar frá Svartsengi nýtt til að framleiða bio-metanól sem verður nýtt til að knýja bíla og önnur  farartæki.

Gott dæmi um nýsköpun sem tengist grænni orkuvinnslu er uppbygging Bláa Lónsins sem nýtir jarðsjó frá Svartsengi með einstökum hætti. Baðstaðinn þekkja allir en þar er einnig að finna Lækningalind og öflugt rannsóknar- og þróunarsetur ásamt þörunga- og kísilvinnslu.

Þá nefnir Albert að nýta megi hreinan og tæran sjóinn við Reykjanesið, sem notaður er til að kæla Reykjanesvirkjun, í alls kyns sjávardýraeldi. Sjórinn er 8 gráður þegar hann er tekinn inn í virkjunina en 35-36 gráður að aflokinni kælingu en það er kjörhitastig fyrir alls kyns sjávardýraeldi. Magnið sem nú væri hægt að nýta er jafnmikið og meðalrennsli Elliðaánna og mun tvöfaldast þegar nýjar virkjanir verða teknar í notkun.

Sjá nánar:

Vefur HS Orku