SA-TV: Framkvæmdastjóri Creditinfo ræðir um atvinnulífið og stöðu heimilanna

Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, á rödd atvinnulífsins sunnudaginn 18. apríl. Hún segir að um 2000 fyrirtæki fari nú í þrot á ári og rúmlega 2000 ný fyrirtæki verði til. Fleiri fyrirtæki séu því stofnuð en fari í þrot og það sé mynstur sem muni líklega verða til staðar á meðan hjól atvinnulífsins eru í hægagangi. Rakel segir stöðu margra heimila áhyggjuefni en allar upplýsingar um vanda þeirra liggi í raun fyrir og ekki þurfi fleiri hugmyndir, tillögur eða skýrslur um hvernig eigi að taka á vandanum.Tími sé kominn til að láta verkin tala - margvíslegar lausnir séu til staðar.

Rakel segir Creditinfo í raun vera stórt vöruhús upplýsinga sem er miðlað til innlendra og erlendra aðila auk þess sem þær eru nýttar í margvíslega rannsóknar- og greiningarvinnu innan fyrirtækisins. Hjá Creditinfo starfa um 60 manns auk nokkurra öflugra kvenna á Ólafsfirði. Fyrirtækið ákvað að flytja ákveðin verkefni út á land og segir Rakel það hafa gefist vel og mælir hún með því að önnur fyrirtæki skoði slíkt.

Varðandi framtíðina segir Rakel að hún hafi fulla trú á því að þjóðin komist í gegnum yfirstandandi erfiðleika og læri af því sem miður hefur farið. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sýni t.a.m. óviðunandi umhverfi og úrelta stjórnarhætti - við því verði að bregðast.

  

Sjá nánar:

Vefur Creditinfo