SA-TV: Einstakar sælusápur framleiddar hjá Sælusápum

Rödd atvinnulífsins laugardaginn 17. apríl á Guðríður Baldvinsdóttur hjá  sápugerðinni Sælusápum sem staðsett er við bæinn Lón í Kelduhverfi á Norðausturlandi. Guðríður stofnaði fyrirtækið ásamt manni sínum Einari Ófeigi Björnssyni og hóf markaðssókn í október 2008 þegar íslenskt efnahagslíf gekk í gegnum eld og brennistein. Sælusápur framleiða og selja handgerðar íslenskar gæðasápur úr náttúrulegum hráefnum og gengur salan vel en nálgast má sápurnar í verslunum víða um land og í gefnum vef fyrirtækisins.

Sápuuppskriftirnar eru allar hannaðar af framleiðanda og er hráefnisöflun sem mest í heimabyggð. Lögð er áhersla á að nota íslensk hráefni svo sem tólg og villtar jurtir. Einnig er notað íslenskt bygg, lífrænt ræktað hunang og mjólk úr þingeyskum kúm svo fátt eitt sé nefnt. Meðal sáputegunda sem framleiddar eru af Sælusápum má nefna Sveitasælu, Sjávarsælu, Hreina sælu, Rósasælu og Skítverkasápu sem hentar einkar vel eftir vorverkin í görðum landsmanna.

Í viðtali við SA-TV hér að neðan segir Guðríður frá framleiðslunni og stuðningsumhverfi frumkvöðla sem hún hefur nýtt sér. Hún er bjartsýn á framtíðina en auk þess að framleiða gæðasápur er hún sauðfjárbóndi og skógfræðingur. Guðríður segir flest hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Sjá nánar:

www.saelusapur.is

Sölustaðir Sælusápa