SA-TV: 11 milljarða fjárfesting í aflþynnuverksmiðju Becromal

Á Krossanesi við Eyjafjörð eru framleiddar aflþynnur í nýrri verksmiðju Becromal á Íslandi. Framleiðslan hófst á haustmánuðum 2009 en verið er að byggja verksmiðjuna í áföngum. Um 100 manns munu vinna hjá fyrirtækinu þegar framleiðslan verður komin á fullan skrið. Heildarfjárfesting nemur um 11 milljörðum króna. Í viðtali við SA-TV segir Gauti Hallsson, framkvæmdastjóri Becromal á Íslandi, frá framleiðslunni og ræðir um rektrarumhverfið. Hann segir mikilvægt að eyða óvissu í efnahagslífinu, lækka vexti og að frekari skattar verði ekki lagðir á reksturinn. Slíkt geti verið mjög skaðlegt.

Becromal á Íslandi er samstarfsverkefni  Becromal SpA, sem er ítalskt félag að uppruna en er í eigu japanska félagsins TDK-EPC í dag, og Strokks Energy sem er íslenskt þróunarfélag verksmiðjunnar. Löng hefð er fyrir atvinnurekstri á Krossanesi en þar var brædd síld og loðna í um 100 ár og var hluti gömlu bræðslunnar notaður í verksmiðjuhús aflþynnuverksmiðjunnar.

Aflþynnurnar sem eru framleiddar á Krossanesi eru fluttar úr landi og notaðar í rafþétta sem er að finna í öllum rafeindatækjum. Meðal framleiðenda sem nota þétta með aflþynnum frá Becromal má nefna Siemens, Bosch og Osram. Vikulegt útflutningsverðmæti verksmiðju Becromal á Íslandi er nú um 90 milljónir króna og mun verða á bilinu 12-14 milljarðar króna á ári þegar framleiðslan nær fullum afköstum. Framleitt er allan sólarhringinn alla daga ársins og ástæðan m.a. hagstætt orkuverð á Íslandi. Fyrirtækið er til að mynda að flytja starfsemi frá Noregi til Íslands vegna óhagstæðs orkuverðs í Noregi.

Gauti segir ýmsa möguleika til staðar á Krossanesi, til dæmis sé hægt að nýta afgangsorku sem verði til við sjókælingu verksmiðjunnar, en aflið sem verður til við það ferli er álíka mikið og Norðurorka notar til að hita Eyjafjarðarsvæðið upp á köldum vetrardögum að sögn Gauta.

Sjá nánar:

Upplýsingar á vef Becromal um aflþynnuverksmiðjuna á Íslandi