SA styðja aukin atvinnuréttindi útlendinga

Fyrir Alþingi liggur nú þingsályktunartillaga sem felur félags- og barnamálaráðherra að skipa starfshóp sem á að móta tillögur um hvernig auka megi atvinnuréttindi ríkisborgara utan EES, EFTA og Færeyja. SA styðja að þingsályktunin nái fram að ganga og hvetja sérstaklega til þess að ítarlega sé farið yfir það fyrirkomulag að tímabundið atvinnuleyfi starfsmanns sé bundið við tiltekinn atvinnurekanda. SA telja þetta óeðlilegt.

Fyrirkomulagið veitir einstaklingnum lítið svigrúm til að þiggja önnur störf en leyfið er bundið við og er til þess fallið að skapa valdaójafnvægi á milli starfsmanns og atvinnurekanda. Eðlilegra væri að atvinnuleyfið sé bundið við starfsmanninn.

Með auknum atvinnuréttindum útlendinga má auðga menningu Íslendinga og hafa jákvæð áhrif á efnahag landsins. Að mati SA er mikill ávinningur fólginn í því að lagalegar hindranir sem mæta útlendingum sem kjósa að starfa hérlendis séu skoðaðar og að leitað sé leiða til að draga úr þeim þar sem það er mögulegt.