SA styðja að hefja söluferli á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka

Samtök atvinnulífsins fagna tillögu Bankasýslu ríkisins um að hefja söluferli á hluta af eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og mættu fyrir fjárlaganefnd Alþingis síðastliðinn fimmtudag til að kynna sín sjónarmið varðandi tillöguna. SA telja tímasetningu almenns útboðs ákjósanlega og að almennt útboð fullnægi skilyrðum um gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni við sölu eignarhlutarins. 

Tímasetningin er góð

Í mars síðastliðnum komust fjármálamarkaðir og allt efnahagslíf í uppnám vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Af þeim sökum er skiljanlegt að Bankasýsla ríkisins hafi dregið tillögu sína um sölu eignarhlutar í Íslandsbanka til baka á þeim tíma. Þróun mála síðan hefur þó verið með þeim hætti að rétt er að taka upp þráðinn að nýju. Fjármálamarkaðir hafa staðið storminn af sér og íslensku viðskiptabankarnir hafa einnig sýnt góðan viðnámsþrótt, enda eiginfjárhlutföll þeirra há, eins og reglur hérlendis kveða á um. Afkoma þeirra hefur verið umfram væntingar og hlutabréfaverð Arion banka náð nýjum hæðum. Þá er lausafjárstaða þeirra sterk, bæði í krónum og erlendum gjaldmiðlum.

Óvissa varðandi framvindu efnahagsmála hefur minnkað töluvert frá því í mars. Stuðningur yfirvalda við fjármagnsmarkaði víða um heim hefur stutt vel við hlutabréfaverð. Eini íslenski viðskiptabankinn sem skráður er á hlutabréfamarkað hér á landi hefur til að mynda hækkað um nær 90% í verði frá lágpunkti í lok mars 2020. Þá hafa þær hlutabréfavísitölur sem fylgja hlutabréfaverði banka, svo sem Nasdaq Bank Index og STOXX Europe 600 Banks, hækkað töluvert frá lágpunkti sínum í mars/apríl síðastliðnum þrátt fyrir verulegan samdrátt í heimshagkerfinu. Sumar þeirra nálgast jafnvel nú þau gildi sem þær stóðu í áður en heimsfaraldurinn skall á. Því eru mun hagfelldari skilyrði til sölu banka nú en við upphaf faraldursins þegar óvissa um framvinduna var í hámarki og hlutabréfaverð hafði lækkað mikið.

Opinbert eignarhald bankakerfisins á Íslandi með því mesta sem þekkist

Ríkið er nú meirihlutaeigandi að viðskiptabankakerfi Íslands og er það ekki í fyrsta sinn. Útvegsbankinn var stofnaður eftir gjaldþrot Íslandsbanka árið 1930 og grunnur lagður að bankakerfi með þremur stórum bönkum í ríkiseigu, en auk Útvegsbankans voru Landsbankinn og Búnaðarbankinn í eigu ríkisins. Í hálfa öld var bankakerfið að stórum hluta í höndum ríkisins. Á þeim tíma urðu litlar framfarir í íslenskum fjármagnsviðskiptum. Bankarnir urðu fyrst og fremst tæki stjórnvalda til að ná pólitískum markmiðum, hvort sem var fyrir einstök kjördæmi, einstakar atvinnugreinar eða jafnvel einstök fyrirtæki.

Vert er að minnast þess að eignarhald ríkisins reyndist ekki trygging fyrir því að bankarnir kæmust hjá fjárhagsvandræðum. Seint á níunda áratug síðustu aldar varð Útvegsbankinn gjaldþrota í kjölfar mikils útlánataps. Bankinn var í framhaldinu endurreistur af ríkinu í formi hlutafélags en hann ásamt Alþýðubankanum, Iðnaðarbankanum og Verslunarbankanum mynduðu síðan Íslandsbanka árið 1990. Íslandsbanki, sem ekki var í ríkiseigu, var öflugur banki sem veitti ríkisbönkunum harða samkeppni sem þeir höfðu í raun ekki búið við áður. Landsbankinn varð fyrir miklu útlánatapi í byrjun tíunda áratugarins og þurfti ríkið að leggja bankanum til verulegt fé til að forða honum frá gjaldþroti.

Hefur Íslandsbanki nú verið að fullu í ríkiseigu frá árinu 2015, eða allt eftir að stöðugleikaframlög fengust afhent frá kröfuhöfum föllnu bankanna, m.a. í formi eignarhlutar í bönkunum. Eins og sakir standa heldur ríkisjóður á eignarhlut í 2/3 hluta viðskiptabankakerfisins á Íslandi. Þar sem um áhættusaman samkeppnisrekstur er að ræða er ríkið aftur á móti ekki ákjósanlegur eigandi meirihluta bankakerfisins – hvorki út frá sjónarhóli skattgreiðenda né viðskiptavina bankanna. Vilji yfirvalda til að draga úr umfangi eignarhalds hins opinbera í fjármálakerfinu er skýr skv. stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar: „Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því.”

 

Fátítt er að hið opinbera eigi stóran hlut í innlendu fjármálakerfi. Þau ríki sem halda á sambærilegum eignarhluta í innlendu fjármálakerfi og Ísland eru Indland og Hvíta-Rússland. Önnur Evrópulönd halda hins vegar á mun minni hlut, ef einhverjum. Þá er eignarhald annarra Norrænna ríkja í fjármálakerfum sínum hverfandi. Eins og fram kemur í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sem gefin var út árið 2018, hafa flest önnur vestræn ríki metið það sem svo að eignarhald ríkis á viðskiptabönkum í samkeppnisrekstri sé ekki forsenda þess að nauðsynlegir innviðir og stöðugleiki í fjármálakerfinu séu tryggð. Það sé betur gert með regluverki og eftirliti.

Það er eðlilegt að traust almennings til fjármálakerfisins sé enn skert eftir það áfall sem dundi yfir fyrir rúmum áratug. Í dag búa bankar hins vegar við gjörólíkt regluverk og eftirlit í samanburði við það sem þá var. Nú gilda til að mynda strangar reglur sem stuðla að heilbrigðu eignarhaldi, svo sem um hæfi eigenda til að fara með virkan eignarhlut í banka og möguleika þeirra til að beita áhrifum í þágu eigin hagsmuna. Ákjósanlegast væri að í stað ríkissjóðs samanstæði hluthafahópur viðskiptabankanna af fjölbreyttum hópi fjárfesta með víðtæka reynslu af fjármálastarfsemi þar sem ólík sjónarmið fengju að koma fram.

Verulegir fjármunir ríkissjóðs eru bundnir í áhætturekstri

Um 430 milljarðar króna eru nú bundnir í rekstri fjármálafyrirtækja hjá ríkinu sé horft til bókvirðis eigin fjár í Landsbankanum og í Íslandsbanka. Yrðu eignarhlutirnir seldir er þó líklegra að minna fé fengist fyrir þá en bókvirði gefur til kynna, ef marka má verðlagningu annarra banka sem skráðir eru á hlutabréfamarkað. Af þessum sökum eru hlutirnir skráðir á 80% af bókvirði eigin fjár í ríkisreikningi.

Til að áætla markaðsvirði eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka væri ef til vill nærtækast að miða við V/I-hlutfall Arion banka, þar sem viðskiptalíkan, markaður og regluverk bankanna tveggja er vel samanburðarhæft. Almennt er betra að miða við stærra úrtak þegar samanburður á margföldurum eða kennitölum er gerður, en þá þarf að leiðrétta fyrir þáttum sem hafa áhrif á starfsumhverfi fyrirtækja í úrtakinu, svo sem regluverk og markaðsaðstæður, sem og eiginfjárhlutfalli og gæði eigna.

Sé tekið mið af verðlagningu Arion banka, sem og annarra banka sem skráðir eru á markað, er ekki ólíklegt að markaðsvirði Íslandsbanka liggi nú á bilinu 70-90% af bókvirði eigin fjár. Hefur ávöxtun eigin fjár Íslandsbanka verið á svipuðu róli og hinna bankanna tveggja undanfarin ár. Mikilvægt er að hafa í huga að allt til ársins 2016 gætti áhrifa af sölu eigna föllnu bankana í uppgjörum þeirra og því ekki einungis um ávöxtun af reglulegum rekstri að ræða fram að því. Slíkir einskiptisliðir munu ekki endurtaka sig.

Verðlagning bankanna, og fyrirtækja almennt, fer þó fremur eftir væntri arðsemi þeirra í framtíð en ávöxtun þeirra í fortíð. Ekki er auðsótt að meta hver vænt ávöxtun Íslandsbanka er samanborið við Arion banka. Engu að síður er hægt er að nota V/I hlutfall Arion banka sem gróft viðmið um mögulegt markaðsverð Íslandsbanka og Landsbankans þar sem rekstur og starfsumhverfi bankanna þriggja eru svipuð.

Miðað við bókvirði eigin fjár banka ríkisins í lok þriðja ársfjórðungs 2020 væri samsvarandi markaðsvirði þeirra út frá líklegu V/I-hlutfalli þá um 300-390 milljarðar króna eða um 128-164 milljarðar fyrir Íslandsbanka eingöngu. Jafngildir verðmæti eignarhlutar ríkisins í bönkunum tveimur því um 10-15% af landsframleiðslu. Skynsamlegra væri að nýta þessa fjármuni, sem nú eru bundnir í áhættusömum samkeppnisrekstri, til að minnka skuldsetningu ríkissjóðs, draga úr vaxtagreiðslum og mögulega bæta vaxtakjör ríkisins.

Fjármunina má nýta betur

Taka þarf tillit til áhrifa sölu eignarhlutarins á fjármögnun ríkissjóðs við ákvörðun um sölu. Ríkissjóður sér nú fram á að auka skuldsetningu sína verulega (um allt að 1.200 milljarða) í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Af þeim sökum er þetta ákjósanlegur tími til eignasölu til að minnka þörf á slíkri skuldsetningu. Sala eigna myndi draga úr áhættu ríkissjóðs og vaxtakostnaði um leið. Þó vextir séu lágir í sögulegu tilliti eru fjármagnskjör íslenska ríkisins lök í alþjóðlegum samanburði, þrátt fyrir að skuldsetning ríkissjóðs megi e.t.v. teljast hófleg. Sala eigna til að draga úr þörf á skuldsetningu gæti aukið tiltrú fjárfesta á ríkissjóði og bætt þannig fjármögnunarkjör ríkisins.

Ef seldur yrði 25% eignarhlutur í Íslandsbanka á margfaldaranum 0,8, svo dæmi sé tekið, væri unnt að draga úr þörf á skuldsetningu ríkissjóðs sem því nemur eða um 37 milljarða. Þannig gætu sparast vaxtagjöld fyrir rúmlega milljarð árlega, gróflega áætlað. Miðað við mismunandi forsendur um verð og stærð hlutar til sölu má telja líklegt að draga megi úr skuldsetningu ríkissjóðs um 19 - 41 milljarð og að árleg lækkun vaxtagjalda gæti numið á bilinu 550 – 1.175 milljónum ef ráðist verður í sölu á hlutum í Íslandsbanka. Frekari sala á hlutum í kjölfarið myndi draga enn frekar úr þörf á aukinni skuldsetningu og lækka vaxtagjöld enn frekar.

Miðað við stærð félaga í Kauphöll Íslands og nýafstaðið hlutafjárútboð Icelandair má ætla að rými sé fyrir útboð á borð við það sem fyrirhugað er með Íslandsbanka á íslenskum hlutabréfamarkaði. Í útboði Icelandair í september síðastliðnum, þar sem tilboðum fyrir rúmlega 30 milljarða var tekið, var um talsverða umframeftirspurn að ræða – þrátt fyrir að líta hefði mátt á kaup á hlutum í félaginu sem mikla áhættufjárfestingu í ljósi viðkvæmrar stöðu þess.

Þátttaka almennings í útboðinu var  mikil sem gefur vísbendingu um að væntingar um aukna þátttöku einstaklinga í hlutafjárútboðum á Íslandi séu raunhæfar. Þá má einnig nefna að sögulega lágt vaxtastig hérlendis gefur tilefni til að ætla að vilji til aukinnar áhættutöku, svo sem fjárfestingar í hlutabréfum, sé meiri en ella. Verði boðinn út hlutur í Íslandsbanka fyrir um 30 milljarða króna yrði stærð þess eignarhlutar sem boðinn verður út í Kauphöllinni ekki ósvipaður markaðsvirði VÍS eða Eikar fasteignafélags. Markaðsvirði Íslandsbanka í heild er þó nær markaðsvirði Arion banka.

Annað og betra regluverk en áður

Viðnámsþróttur bankanna hefur verið aukinn og margfalt meiri kröfur eru nú gerðar um eigið fé bankanna en áður. Þá hafa reglur verið settar sem takmarka óhóflega skuldsetningu þeirra auk þess sem lausafjárreglur hafa verið hertar. Íslenskir bankar ættu því, miðað við allar þær breytingar sem hafa verið gerðar á umgjörð regluverks þeirra, að vera umtalsvert betur í stakk búnir til að takast á við áföll en áður. Þá eru jafnvel uppi sjónarmið um að gengið hafi verið of langt í þeim efnum.

Hlutverk ríkisins á fjármálamarkaði er fyrst og fremst að tryggja bankakerfinu þá umgjörð sem dregur úr óhóflegri áhættu og kostnaði skattgreiðenda, en ekki að annast rekstur fjármálafyrirtækja. Öll önnur vestræn ríki virðast taka undir þau sjónarmið.

Með tilliti til ofangreindra þátta telja SA nú kjörið tækifæri til að bjóða hluta af eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka til sölu í almennu útboði og undirbúa þannig jarðveginn fyrir sölu bankans í heild.


Minnisblaðið má nálgast hér.